Sport

Bolt vill komast að hjá IAAF: Segir skort á súper­stjörnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt vann átta Ólympíugull á ferlinum.
Usain Bolt vann átta Ólympíugull á ferlinum. Getty/Patrick Smith

Spetthlaupsgoðsögnin Usain Bolt sækist nú eftir því að fá hlutverk hjá Alþjóða frjálsíþróttasambandinu.

Bolt er ein stærsta stjarnan sem frjálsar íþróttir hafa eignast en hann vann átta gullverðlaun á Ólympíuleikum og ellefu heimsmeistaragull. Bolt á heimsmetið í bæði 100 og 200 metra hlaupi og hefur átt þau í að verða fimmtán ár.

Bolt segir að það sé skortur á súperstjörnum í frjálsíþróttaheiminum og hann vilji ólmur hjálpa til við það að búa til nýjar stjörnur.

Bolt ræddi þessa drauma sínum við Reuters og hann telur mikilvægt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að íþróttin missi stöðu sína og vinsældir.

Hann vill gera sitt í að auka vinsældirnar og búa til nýja sterka persónuleika.

„Ég eyði miklum tíma með fjölskyldunni af því að ég er ekki eins mikið inn í frjálsum íþróttum í dag og ég vildi,“ sagði Usain Bolt.

„Ég er enn að bíða eftir því að fá stöðu hjá Alþjóðasambandinu. Ég hef haft samband við þá og látið þá vita af því að ég vil gera mitt fyrir sportið svo framarlega að þess sé óskað. Ég hef verið í viðræðum við sambandið. Ég get vonandi hjálpað sportinu að vaxa,“ sagði Bolt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×