Sport

Katrín endaði önnur og vann sér inn sæti á heimsleikunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Katrín Tanja er á leið á sína tíundu heimsleika.
Katrín Tanja er á leið á sína tíundu heimsleika. Mynd: CrossfitGames

Katrín Tanja Davíðsdóttir varð í kvöld þriðji Íslendingurinn til að vinna sér inn sæti á heimsleikunum í CrossFit á þessu ári. Katrín hafnaði í öðru sæti á undanúrslitamóti sem fram fór um helgina og er því á leið á sína tíundu heimsleika.

Katrín keppti á sterku undan­úr­slita­móti vestur­hluta Norður-Ameríku sem fram fór í Pasa­dena sem er norð­austur af Los Angeles borg. Alls var keppt í sjö greinum og að þeim loknum unnu tíu efstu konurnar sér inn þátt­töku­rétt á heims­leikunum.

Katrín var í afar góðri stöðu fyrir lokagreinina sem fram fór í kvöld og sat í öðru sæti af 60 keppendum. Hún hafnaði í níunda sæti lokagreinarinnar og hélt þar með öðru sætinu naumlega og vann sér inn þátttökurétt á heimsleikunum.

Hún endaði með 527 stig eftir greinarnar sjö, tveimur stigum meira en Arielle Loewen sem hafnaði í þriðja sæti og ellefu stigum minna ne Alex Gazan sem vann mótið.

Þetta verða tíundu heimsleikar Katrínar, en hún náði ekki að vinna sér inn þátttökurétt í fyrra eftir að hafa verið með sjö ár í röð á undan því. Hún er því líkega hungruð í að sýna sig og sanna að hún eigi vissulega heima á þessu stærsta CrossFit-móti ársins.

Áður höfðu þau Breki Þórðar­son og Bergrós Björns­dótt­ir tryggt sér sæti á leikunum, Breki mun keppa í aðlöguðum flokki á meðan að Bergrós keppir í flokki 16-17 ára stúlkna.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.