Innlent

Vonir um að út­breiðslan sé ekki mikil

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Matvælastofnun minnir á að meðgöngutími veikinnar er langur og hvetur bændur með fé frá sýktum bæjum til þess að afhenda fé.
Matvælastofnun minnir á að meðgöngutími veikinnar er langur og hvetur bændur með fé frá sýktum bæjum til þess að afhenda fé. Vísir/Vilhelm

Niður­stöður sem komnar eru úr greiningu riðu­sýna í Mið­fjarðar­hólfi vekja vonir um að út­breiðslan sé ekki mikil. Því er brýnt að hefta hana með fum­lausum við­brögðum og í því sam­bandi mikil­vægast að taka mögu­lega smit­bera úr um­ferð eins fljótt og hægt er.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Mat­væla­stofnun. Þar segir að Til­rauna­stöð Há­skóla Ís­lands í meina­fræði að Keldum hafi nú greint um þriðjung sýna eða 234 sem tekin voru í tengslum við niður­skurð vegna riðu­veiki á Bergs­stöðum og tæp­lega helming sýna, 342, frá Syðri-Urriða­á.

Full­víst að hjörðin var út­sett

Að sögn Mat­væla­stofnunar hefur riðu­smit verið stað­fest í um sex prósent sýna frá Berg­stöðum en smitefnið hefur ekki greinst í neinu sýni frá Syðri-Urriða­á enn sem komið er, að undan­skildu sýni frá einni á sem flutt hafði verið þangað frá Bergs­stöðum haustið 2020.

Hins vegar segir stofnunin að ekki sé hægt að á­lykta út frá þessu að riða hafi ekki náð að breiðast út í hjörðinni á Syðri-Urriða­á. Full­víst sé að hjörðin var út­sett fyrir smitefninu, því ærin frá Bergs­stöðum gekk í hjörðinni í þrjá vetur og ó­hugsandi annað en að hún hafi mengað um­hverfi hjarðarinnar og smitað ein­hverjar ær með beinum hætti.

Segir stofnunin að niður­stöðurnar sýni fyrst og fremst að á Syðri-Urriða­á hafi fáar kindur, ef ein­hverjar, verið langt komnar á með­göngu­tíma sjúk­dómsins. Þróun sjúk­dómsins hafi því verið skemmra á veg komin en á Bergs­stöðum og mögu­lega hefur smitefnið ekki verið búið að magnast upp með sama hætti.

Með­göngu­tíminn getur verið langur

Í­trekar Mat­væla­stofnun að með­göngu­tími sjúk­dómsins sé oftast 1,5 til 2 ár, en getur verið mun lengri. Mest allan þann tíma leynist smitefnið í eitlum meltinga­færanna og víðar í líkamanum, magnast þar upp og er skilið út með skít, munn­vatni og leg­vatni.

Það er ekki fyrr en stuttu áður en ein­kenni sjúk­dómsins koma fram að mögu­legt er að greina smitefnið í mið­tauga­kerfinu með sýna­töku úr mænu­kylfu og litla heila. Því er var­huga­vert að draga of sterkar á­lyktanir út frá nei­kvæðum niður­stöðum á meðan já­kvæðar niður­stöður eru mjög öruggar.

Þá minnir Mat­væla­stofnun á að það sé á á­byrgð sér­hvers sauð­fjár­bónda að gera allt sem í hans valdi stendur til að verja hjörð sína smiti og ekki síður að koma í veg fyrir að kindur í hans eigu smiti aðrar hjarðir.

Hvetur bændur til að af­henda fé

Engum dylst, að sögn stofnunarinnar, að það sé mikið á­fall fyrir sauð­fjár­bónda þegar riðu­veiki greinist í hans hjörð og allir sem að málum koma finna til sam­kenndar með þeim bændum. Bændurnir á Berg­stöðum og Syðri-Urriða­á hafa sýnt mikið hug­rekki, axlað á­byrgð og verið sam­vinnu­fúsir í yfir­standandi að­gerðum, sam­kvæmt stofnuninni.

Hún hvetur þá bændur sem keyptu fé frá Syðri-Urriða­á og enn hafa ekki sam­þykkt að af­henda stofnuninni þær kindur, eins og reglu­gerð kveður á um, að gera slíkt. Riðu­veiki veldur sárs­auka­fullum tauga­skaða í mið­tauga­kerfi sauð­fjár og það er skylda okkar að hindra út­breiðslu svo al­var­legs sjúk­dóms.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×