Innlent

Segir yfir­lýsingu um boðaða hækkun á leigu­verði minna á vísinda­skáld­skap

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
„Mér fannst þetta um margt merkilegt viðtal og sýnir okkur kannski glöggt inn í hugarheim einstaklinga sem standa á bakvið félagið,“ segir Guðmundur Hrafn, formaður samtaka leigjenda. 
„Mér fannst þetta um margt merkilegt viðtal og sýnir okkur kannski glöggt inn í hugarheim einstaklinga sem standa á bakvið félagið,“ segir Guðmundur Hrafn, formaður samtaka leigjenda.  Vísir/Steingrímur Dúi

Formaður samtaka leigjenda er hræddur um að mörgum hafi brugðið þegar stjórnarformaður leigufélagsins Ölmu boðaði hækkun á leiguverði í dag. Yfirlýsing stjórnarformannsins um að leiguverð sé of lágt minni á vísindaskáldskap.

Leigumarkaðurinn og slæm staða leigjenda hafa verið til umræðu síðustu misseri. Margir hafa gagnrýnt leigufélagið Ölmu og þær hækkanir sem félagið hefur gert á leigusamningum undanfarið. 

Gunnar Þór Gíslason, stjórnarformaður Ölmu, sagði í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að honum þyki félagið alls ekki eins slæmt og margir vilji meina. Hann sagði leiguverð í raun of lágt og boðaði hækkun.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda hafði sitt að segja um orð Gunnars.

„Mér fannst þetta um margt merkilegt viðtal og sýnir okkur kannski glöggt inn í hugarheim einstaklinga sem standa á bakvið félagið,“ segir Guðmundur. Hann telur að það hafi farið um marga. 

„Vegna þess að þarna er hann að segja okkur og sýna okkur að þetta snúist ekkert um hvort að það sé einhver rekstrarkostnaður að hækka hjá félaginu heldur bara að hann ætli að hækka leiguna þangað til að hann framkallar þjóðfélagsbreytingar. Og hann tekur sér þetta vald að geta hækkað húsaleigu endalaust, jafnvel þó það þýði að það verði miklar þjóðfélagsbreytingar.“

Þetta er bara eins og í vísindaskáldsögu.

„Ég meina, maðurinn stundar svínarækt“

Guðmundur kallar eftir því að stjórnvöld stígi inn í og verji leigjendur fyrir hegðun eins og Gunnar lýsti í morgun.

„Þar sem hann ætlar bara að hækka leigu, jafnvel þó það þýði að fjölskyldur þurfi að búa saman, þurfi að búa þröngt. Ég meina, maðurinn stundar svínarækt. Ég veit ekki hvort hann ætlar að varpa þessum hugmyndum sínum um svínarækt og þröngbýli yfir á leigjendur vegna þess að hann veit að leigjendur munu alltaf einhvern veginn þurfa að koma þaki yfir höfuðið. Hann ætlar bara að hækka leiguna þar til þeir hreinlega gefa upp öndina. Og mér finnst að stjórnvöld eigi að bera ábyrgð á því, svona hugsunarhætti.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×