Sport

KA kláraði þrennuna með sigri í oddaleik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
KA varð í kvöld Íslandsmeistari kvenna í blaki.
KA varð í kvöld Íslandsmeistari kvenna í blaki. Akureyri.net

KA varð í kvöld Íslandsmeistari kvenna í blaki eftir sigur gegn Aftureldingu í oddaleik í kvöld. Það má með sanni segja að einvígið hafi farið alla leið, því oddahrinu þurfti til að skera úr um sigurvegara.

KA tryggði sér því um leið þrennuna því liðið hafði áður á tímabilinu tryggt sér deildarmeistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn. Þetta er í þriðja sinn á seinustu fjórum árum sem KA vinnur Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna.

Það voru þó Mosfellingar sem byrjuðu betur í kvöld og unnu fyrstu hrinu nokkuð örugglega, 25-17. Norðankonur svöruðu þó í annarri hrinu og jöfnuðu metin í 1-1 með því að vinna hrinuna með fjórum stigum, 25-21.

Heimakonur frá Akureyri höfðu svo góð tök á þriðju hrinu og unnu hana 25-17 og taðan orðin 2-1. Eftir gríðarlega jafna fjórði hrinu tóks Mosfellingum þó að knýja fram oddahrinu með því að skora fimm síðustu stig hrinunnar og vinna hana að lokum 25-20.

Oddahrinan var svo ekki minna spennandi. Gestirnir frá Mosfellsbæ leiddu 9-7, en Akureyringar snéru taflinu við og voru einu stigi yfir í stöðunni 13-12. Norðankonur skoruðu svo tvö stig í röð og tryggðu sér þar með sinn þriðja Íslandsmeistaratitil á fjórum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×