Erlent

Munu fara fram á himin­háar bætur frá Græn­lendingum

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrirhuguð námuvinnsla átti að fara fram í Kvanefledet, ekki langt frá bænum Narsaq á suðvesturströnd Grænlands.
Fyrirhuguð námuvinnsla átti að fara fram í Kvanefledet, ekki langt frá bænum Narsaq á suðvesturströnd Grænlands. Getty

Ástralska námuvinnslufyrirtækið Energy Transition Minerals, sem áður hét Greenland Minerals, ætla sér að stefna dönskum og grænlenskum stjórnvöldum og fara fram á himinháar skaðabætur, fái fyrirtækið ekki heimild til að halda fyrirhugaðri námuvinnslu áfram í Kuannersuit. 

Verði ekki farið að kröfum fyrirtækisins verði farið fram á 15 milljarða danskra króna í skaðabætur, rúmlega þrjú þúsund milljarða íslenskra króna.

Danska blaðið Politiken segir frá þessu en málið má rekja til ákvörðunar grænlensku heimastjórnarinnar að banna alla úranvinnslu á Grænlandi.

Ástralska fyrirtækið vill meina að ákvörðun heimastjórnarinnar um að stöðva námuvinnslu fyrirtækisins hafi falið í sér brot á reglum.

Málið er nú á borði sérstaks dansks gerðardóms en svo kann að fara að málið rati til almennra dómstóla. Fer námuvinnslufyrirtækið fram á að fallið verði frá banninu og að fyrirtækið fái heimild til vinnslunnar, eða þá að fá greiddar himinháar skaðabætur úr hendi danska ríkisins og Grænlands.

Politiken segir ennfremur að samkomulag hafi náðst um að dönsk stjórnvöld greiði þriðjung alls lögfræðikostnaðar í málinu.

Missir ekki svefn vegna málsins

Haft er eftir Jørgen Hammeken-Holm, ráðuneytisstjóra í danska auðlindaráðuneytinu, að málið sé ekki þannig vaxið að hann missi svefn vegna þess. 

„Það er alþekkt að fyrirtæki líkt og þetta ástralska stefni ríkisstjórnum og fari fram á gegndarlausar skaðabætur. Því hærri upphæð, því meira er því ætlað að láta mótaðilann skjálfa á beinunum.“

Var helsta kosningamálið

Námuvinnsluverkefni Greenland Minerals var helsta kosningamálið í grænlensku þingkosningunum 2021 þar sem andstæðingar verkefnisins náðu meirihluta á grænlenska þinginu og lögðu skömmu síðar bann við úranvinnslu sem varð til þess að ekkert varð úr verkefninu.

Greenland Minerals hafði þá verið starfandi á Grænlandi frá árinu 2007 með það að markmiði að hefja þar vinnslu á málmum. Í Kvanefjeldet í Kuannersuit er líka að finna úran og vinnsla á slíku yrði ávallt óhjákvæmilegur fylgifiskur fyrirhugaðrar málmvinnslunnar þar.


Tengdar fréttir

Græn­lendingar banna úran­vinnslu

Grænlenska þingið samþykkti í gær að banna úranvinnslu og leit að úrani innan lögsögu Grænlands. Tólf þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu, en níu gegn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×