Þemað var Karl Lagerfeld: A Line of Beauty. Lagerfeld var listrænn stjórnandi Chanel tískurisans og var markmið kvöldsins að heiðra arfleifð hans í tísku- og listheiminum. Lagerfeld lést úr krabbameini fyrir þremur árum síðan, þá áttatíu og fimm ára gamall.

Kisur og þvengir
Mikið var um svarta og hvíta liti á dreglinum í gær og eru þeir litir algjörlega í anda Lagerfelds. Þó voru sumir sem hristu upp í því og má þar meðal annars nefna að tónlistarmaðurinn Lil Nas X klæddist silfurlituðum Dior þveng og var þakinn silfur málningu, glimmeri, perlum og demöntum.
Förðunarfræðingurinn Pat McGrath sá um förðunina en hún er sérfræðingur í einstakri og óhefðbundinni förðun og sá meðal annars um eftirminnilegt rautt lúkk fyrir tónlistarkonuna Doja Cat á Schiaparelli sýningunni í París fyrr á árinu.

Lil Nas var með andlitsgrímu sem minnti á kisu en Lagerfeld var mikill kisumaður og átti köttinn Choupette Lagerfeld, sem hann sótti gjarnan innblástur til í hönnun sinni.
Doja Cat tók kisuþemað einnig alla leið og klæddi sig upp sem kötturinn Choupette í glæsilegum Oscar de la Renta galakjól, með kisueyru og kattarnef.

Glæsileg í brúðarkjól
Kim Kardashian skein skært í hönnun Schiaparelli, þrátt fyrir háværar sögusagnir um að henni yrði ekki boðið á viðburðinn í ár.
Tískuhúsið Schiaparelli hefur verið áberandi í ár og er Kim þekkt fyrir að vera með puttann á púlsinum þegar það kemur að heitustu hönnuðunum.

Poppstjarnan Rihanna mætti seint, eða fashionably late eins og Met Gala kallaði það, og var algjör senuþjófur í glæsilegum hvítum Valentino brúðarkjól. Óléttubumban naut sín vel og var barnsfaðir hennar A$AP Rocky henni við hlið. Parið hefur ekki enn tilkynnt um trúlofun eða giftingu en brúðarkjóllinn gæti þó ýtt undir vangaveltur um hvort þau muni ganga í það heilaga á næstunni.

Umdeilt þema
Ákvörðun stjórnarmeðlima Met Gala um að hafa þemað í tengslum við Karl Lagerfeld hefur verið umdeild, þar sem Lagerfeld var umdeildur maður. Í gegnum tíðina lét hann ýmis orð falla sem féllu ekki vel í kramið hjá öllum og gáfu til kynna fordóma.
Leikkonan Jameela Jamil var meðal þeirra sem tjáði sig um þetta en á Instagram síðu sinni skrifaði hún meðal annars að Lagerfeld hafi opinberlega talað gegn konum, MeToo hreyfingunni, flóttafólki og feitu fólki.
Tónlistarkonan Lizzo var meðal gesta Met Gala í gær en hún hefur talað opinskátt um jákvæða líkamsímynd og fjölbreytileika, bæði í lögum sínum sem og viðtölum. Hún birti mynd af sér á Instagram frá kvöldinu þar sem hún er stödd í eldhúsi að borða franskar, klædd í Chanel galakjól.
Sumir aðdáendur söngkonunnar hafa skilið eftir athugasemdir við myndina þar sem þeir þakka henni fyrir að ögra hugmyndafræði Lagerfelds með þessari mynd, á meðan að aðrir hafa gagnrýnt hana fyrir það að taka þátt á Met Gala í ár sökum þemans.

Hér má sjá fleiri myndir af stjörnum gærkvöldsins:










