Menning

Krabba­meins­bar­áttan varð að dans­verki

Íris Hauksdóttir skrifar
Sigga Soffía samdi ljóðabók um veikinda baráttuna og setti sömuleiðis á svið leikverk um reynsluna.
Sigga Soffía samdi ljóðabók um veikinda baráttuna og setti sömuleiðis á svið leikverk um reynsluna.

Dansarinn, fjöllistakonan og flugeldahönnuðurinn Sigríður Soffía Níelsdóttir, eða Sigga Soffía eins og hún er alltaf kölluð, greindist með krabbamein fyrir tveimur árum. Þá með tvö lítil börn að útskrifast með meistaragráðu, sjálfstætt starfandi og nýflutt í draumahúsið á nesinu.

Sigga Soffía lét þessa óvæntu og óvelkomnu áskorun ekki stöðva sig í fjölbreyttum áformum sínum varðandi framtíðina enda þekkt fyrir mikinn sköpunarkraft. Hún samdi ekki bara ljóðabók um veikinda baráttuna heldur setti sömuleiðis á svið leikverk um reynsluna.

Allir geta tengt við tilfinningar

„Ég fór í uppskurð, lyfja og geislameðferð. Yngra barnið mitt var fjórtán mánaða þegar ég greindist en sú eldri sjö ára. Þetta tók auðvitað gríðarlega á.

Ljóðabókin byrjaði sem nokkurs konar dagbók þar sem ég skrifaði mig frá allskonar tilfinningum og hugsunum. Útkoman reyndist vera þessi bók því það geta allir tengt við tilfinningar. 

Það að lenda í áfalli og vilja vera góð móðir, lifa lífinu sínu og fá að vera með – en geta það ekki til fulls. Ég vildi fara fallega með umfjöllunarefnið og nálgast það með húmorinn á lofti.

Ég sá fyrir mér að bókin yrði handrit að dansverki svo orðin myndu aldrei sjást bara dansinn en svo fór boltinn að rúlla og allir sem lásu hvöttu mig eindregið til að gera eitthvað meira við textann. Ég ætlaði aldrei að gefa þessa bók út. Ég sá fyrir hóp kvenna sem gætu flutt verkið með mér og úr varð þetta verk."

Klippa: Til hamingju með að vera mannleg

Til hamingju með að vera mannleg, er sviðsverk sem skartar hæfileikaríkustu leikkonum landsins: Nínu Dögg, Svandísi Dóru, Lovísu Ósk, Ellen Margréti, Hallvegu Kristínu, Díönu Rut, ásamt Siggu Soffíu sjálfri. Jónas Sen sér um tónlistina en verkið er sett upp af Níels-dætrum í samvinnu við Þjóðleikhúsið. Styrkt af sviðslistasjóði, listamannalaunum og Reykjavíkurborg.

Sigga Soffía hefur sett á svið hin ýmsu verk út um allan heim.Marino Thorlacius

Sigga Soffía á langan og glæstan feril að baki en furðu vekur þó starfstitillinn flugeldahönnuður. 

Hvernig kom það til?

„Ferillinn hófst í dansinum. Ég byrjaði snemma og hef sett á svið hin ýmsu verk út um allan heim. Ég hannaði flugeldasýningu fyrst fyrir menningarnótt og sinnti því hlutverki af alúð í þrjú ár. Ég ferðaðist síðar erlendis þar sem ég gerði slíkt hið sama.“

Sigga Soffía sækir innblástur sinn til Japan hvað sjálfbærni og mengunarmál varðar.Marino Thorlacius

Á ferðalögum sínum erlendis segist Sigga Soffía einkum hafa dregið innblástur frá Japan hvað sjálfbærni og mengunarmál varðar. „Í Japan er orðið flugeldur: Hanabi en beinþýðing orðsins er Hana: Eldur og Bi: Blóm = Eldblóm. Þarna kviknaði hugmyndin um sýninguna mína: Eldblóm sem var opnunaratriðið á Listahátíðinni í Reykjavík 17. júní 2020. Ég gerði síðan fleiri sýningar, meðal annars í Hallagarðinum þar sem ég sýndi 850 mismunandi blóm að sprengjast út líkt og flugeldar. Í kjölfarið fór ég að rækta og selja lauka sem seldir voru í sérstökum umbúðum svo fólk gæti sett af stað sína eigin flugeldasýningu heiman frá sér.“ 

Ljóst er að Sigga Soffía hefur ótal járn í eldinum en hún ítrekar að aðeins örfáar sýningar séu til boða af Til hamingju með að vera mannleg og hvetur því áhugasama um að hafa hraðar hendur til að næla sér í miða. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×