Innlent

Land­græðslunni hugnast ekki heitið Land og skógur fyrir sam­einaða stofnun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Menn hafa haft ákveðnar efasemdir um ágæti sameiningarinnar, enda stangast verkefnin stundum á.
Menn hafa haft ákveðnar efasemdir um ágæti sameiningarinnar, enda stangast verkefnin stundum á. Landgræðslan

Landgræðslunni hugnast ekki að ný stofnun sem verður til með sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar verði kölluð „Land og skógur“, líkt og lagt er til í samnefndu frumvarpi um hina nýju stofnun.

Í umsögn Landgræðslunnar um frumvarpið, sem er undirrituð af Árna Bragasyni landgræðslustjóra, er vitnað í athugasemdir með frumvarpinu þar sem segir meðal annars:

„Ákveðið var snemma í ferlinu að velja nýtt og þjált heiti á stofnunina. Land og skógur þykir lýsandi fyrir starfsemi stofnunarinnar og hefur skírskotun til verkefna og heita eldri stofnana.“

Landgræðslunni vill hins vegar finna „heppilegra“ nafn.

„Þannig sýnist nafnið Land og skógur hvorki sérstaklega þjált né heldur er auðvelt að átta sig á tengingu við verkefni og heiti eldri stofnana, a.m.k. ekki Landgræðsluna. Landgræðslan leyfir sér að nefna hugmyndir sem upp hafa komið fram í sameiningarferlinu, s.s. Land og líf, Stofnun landgæða og Fold,“ segir í umsögn Landgræðslunnar.

„Land og líf“ er heitið á landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt til ársins 2031.

Þá leggur Landgræðslan til að bætt verði við texta þar sem fjallað er um útgáfu landsáætlunar um landgræðslu og skógrækt til tíu ára. Viðbótin hljóðar þannig:

„Áætlunin skal stuðla að framförum í mati á jarðvegsvernd og í landnýtingu, þ.m.t. skógrækt og vernd og endurheimt vistkerfa.“

Í umsögninni er að finna tilvísun í þær efasemdir sem menn hafa haft uppi um ágæti þess að sameina stofnaninar tvær. Þar segir:

„Ef sameiningin á að heppnast sem skyldi verður leiðsögn í málaflokknum að vera skýr. Enda þótt stofnanirnar eigi margt sameiginlegt þá eru líka ákveðnir hlutir sem greina þær að, t.d. geta viðfangsefnin ræktun nytjaskóga og verndun vistkerfa stangast á. Það að tryggja það að unnið verði með skýrum og markvissum hætti eftir stefnunni Land og líf, er því lykilatriði í hinu vænta sameiningarferli.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×