Á vef Bændasamtakanna kemur fram að hjónin hafi búið á Erpsstöðum í 25 ár og alla tíð ástundað búskap sinn af forsjá og áhuga.
„Á þessum árum hafa þau eflt búið verulega, aukið ræktað land, fjölgað kúm og framleiðslu afurða. Auk þess hafa þau stundað fjölþætta aðra starfsemi í landbúnaði. Til dæmis voru þau með fyrstu bændum sem gerðu samning við Vesturlandsskóga um skógrækt á bændabýlum. Byggt var nýtt fjós 2008 og heimavinnsla mjólkurafurða hófst árið eftir. Á Erpsstöðum er nú tekið á móti og þúsundum ferðamanna árlega sem koma í heimsókn, kynna sér íslenskan landbúnað og bragða á vörum þeirra sem framleiddar eru undir vörumerkinu Rjómabúið á Erpsstöðum. Samhliða er einnig boðið upp á gistiþjónustu á bænum,“ segir í tilkynningunni.
Að neðan má sjá innslag úr Kvöldfréttum Stöðvar 2 árið 2022 þar sem búið var heimsótt.
Fram kemur að Helga og Þorgrímur eigi fimm börn, en að þau hafi einnig tekið börn í fóstur á búinu, bæði til skemmri og lengri tíma.
„Til viðbótar hafa þau um langt árabil tekið á móti nemum í starfsnám frá landbúnaðarskólum í Evrópu. Ennfremur hafa þau tekið virkan þátt í félagsstörfum svo sem með setu í sveitarstjórn, stjórnum búnaðarfélaga, æskulýðsfélaga og annarra samtaka í nærsamfélaginu auk forystu í samtökum framleiðenda beint frá býli á landsvísu.

Matvælaráðherra veitir landbúnaðarverðlaun árlega í tengslum við Búnaðarþing. Ráðherra landbúnaðarmála veitti landbúnaðarverðlaun fyrst árið 1997 og þau hafa verið veitt flest ár síðan eða alls 24 skipti. Á árinu 2023 var í fyrsta sinn auglýst eftir tilnefningum opinberlega í Bændablaðinu. Alls bárust sex tilnefningar. Í gegnum árin hefur fjöldi verðlaunahafa verið breytilegur en að þessu sinni er einn verðlaunahafi,“ segir í tilkynningunni.