„Ég var búin að segja við Gísla Martein og Gunnar Nelson; Þið verðið að fylgjast með þessu og láta mig vita. Þannig að þeir voru alltaf að horfa á brjóstin á mér og greinilega öll þjóðin líka,“ segir Saga Garðarsdóttir í viðtali í Bakaríinu síðasta laugardag.
Rigndi inn skilaboðum frá ókunnugum karlmönnum
„Þannig að eftir þáttinn fékk ég skilaboð frá körlum sem voru gríðarlega ánægðir með þessa brjóstasýningu sem var greinilega í gangi. Mér fannst þetta nú bara hressandi þar sem ég hef aldrei fengið svona skilaboð áður,“ segir Saga kíminn og leynir kaldhæðnin sér ekki.

Spurð um skálastærð
Saga las upp nokkur skilaboð sem henni bárust eftir þáttinn frá ókunnugum karlmönnum sem fundu sig knúna til þess að senda henni skilaboð til þess eins að deila með Sögu áliti sínu og hrifningu á brjóstum hennar.
Flott hjá Gísla Marteini! Flott að þora að sýna bobbana!
„Ég var nú mjög ánægð að hann notaði þetta orð yfir brjóstin mín, þar sem þau eru agnarsmá,“ segir Saga kaldhæðin.
Einhverjir gátu heldur ekki staðist mátið og forvitnuðust um skálastærð.
Hvaða skálastærð ertu? Notar þú brjóstarhaldara með spöngum?
Þó að Saga geri vissulega góðlátlegt grín af þessari uppákomu viðurkennir hún þó að hafa fundist þetta hálf óþægilegt eftir á að hyggja. Hún furði sig á því hversu mikil og sterk viðbrögð brjóst kvenna geta vakið, eins eðlileg og saklaus þau séu.
Allt eðlilegt hér
Eins og áður sagði var Saga gestur í Bakaríinu síðasta laugardag ásamt Snjólaugu Lúðvíksdóttur en þær stöllur hafa verið með uppistandssýninguna Allt eðlilegt hér í Bæjarbíó í að verða ár en aðeins tvær sýningar eru eftir.
Í viðtalinu, sem hægt er að að nálgast í heild sinni hér að neðan, ræddu þær Saga og Snjólaug um konur og grín, berskjöldunina í uppistandinu og framtíðarverkefnin.
Eins og rokkstjarna eftir góða sýningu
Aðspurðar hvaða tilfinningar þær upplifi eftir vel heppnað uppistand segja þær báðar
„Þú ert svolítið berskjaldaður á sviðinu því að þú getur ekki kennt neinum öðrum um, það er enginn leikstjóri eða handritshöfundur sem klúðraði ef þetta virkar ekki,“
segir Snjólaug þegar talið berst að hugrekkinu og þorinu sem felst í því að standa á sviði treysta því að áhorfendur springi úr hlátri.
„Á sama tíma eru verðlaunin líka rosaleg,“ bætir Snjólaug við og tekur Saga í sama streng.
Maður verður smá svona eins og rokkstjarna eftir sýningu. Snorri talar um það þegar ég kem heim og það hefur gengið vel að ég sé svona „dick swinging“. Kem heim og er eitthvað;Jæja Snorri, finnst þér ekki gaman að vera maðurinn minn?

Morgunþátturinn Bakaríið er á dagskrá alla laugardaga frá 9 - 12 á Bylgjunni. Hægt er að nálgast síðasta þátt í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.