Innlent

Grét þegar hann var upp­lýstur um magn efnanna

Kolbeinn Tumi Daðason og Margrét Björk Jónsdóttir skrifa
Jóhannes Páll Durr við aðalmeðferð málsins í morgun.
Jóhannes Páll Durr við aðalmeðferð málsins í morgun. Vísir

Á myndbandi sem sýnt var við aðalmeðferð í stóra kókaínmálinu í Héraðsdómi Reyjavíkur í dag sést Jóhannes Páll Durr, einn sakborninga, brotna niður þegar lögregla upplýsir hann um að vigtun á efnunum hafi leitt í ljós að um rúmlega 99 kíló af kókaíni væri að ræða. Verjandi Jóhannesar segir lögreglu hafa sprengt málið upp á fáránlegum tímapunkti.

Málflutningur í stóra kókaínmálinu fer fram í dag og lýkur þar með aðalmeðferð í málinu sem hófst þann 19. janúar. Fjórir menn sæta ákæru fyrir skipulagða brotastarfsemi og tilraun til stórfellds fíkniefnabrots. Þeir eru einnig allir ákærðir fyrir peningaþvætti.

Meðal ákærðu er Jóhannes Páll Durr, 28 ára karlmaður. Almar Þór Möller, verjandi hans, spilaði fjögurra mínútna myndband í dómsal í dag þar sem lögregla ræddi við Jóhannes þann 16. ágúst 2022, tæpum tveimur vikum eftir handtöku hans.

Greip um andlit sitt

Þar var honum tjáð að bráðabirgðarvigtun sýndi að um meira en 99 kíló hafi verið að ræða.

„Í alvörunni?“ svaraði Jóhannes í myndbandinu. Því næst tók hann fyrir andlit sitt og brotnaði niður og grét. Upplýsingarnar virtust mikið áfall fyrir Jóhannes sem virtist í geðshræringu.

„Ég vissi þetta ekki,“ sagði Jóhannes við lögreglu í myndbandinu.

„Er þetta meira en þú bjóst við?“ spurði lögreglumaður.

Hundrað kíló sem lagt var hald á í Rotterdam. Aðeins hluti efnanna var prófaður og gengið úr skugga um að um nánast hreint kókaín væri að ræða.

„Mér hefði aldrei dottið í hug að þetta væri svona mikið. Páll spurði mig en ég sagðist ekki vita það, að ég vildi ekki vita það.“

Almar verjandi sagði að enginn sem hefði séð þessa upptöku ætti að velkjast í vafa um að Jóhannes hafði ekki minnsta grun um þyngd haldlagðra efna. Þá sagði Jóhannes við lögreglu:

„Ég skil af hverju ég er búinn að vera fastur í þessum klefa.“

Framsetning ákæru ósanngjörn

Almar benti á að Jóhannes hefði játað aðild að málinu en yrði þó að neita sök varðandi innflutning á 99 kílóum, enda hefði hann ekki haft hugmynd um slíkt magn.

„Það verður að segjast að framsetning ákæru er verulega ósanngjörn og ekki í samræmi við áralanga hefð, þar sem þætti hvers og eins sakbornings er lýst,“ sagði Almar. Þannig virðist þáttur Jóhannesar meiri en efni standi til.

Almar Möller, verjandi Jóhannesar, til vinstri á myndinni.Vísir

Þá minnti Almar á að Jóhannes hefði ekki framleitt nein fíkniefni eða búið til. Hann hefði ekki flutt nein fíkniefni til landsins. Gámurinn hefði þegar verið farinn af stað þegar Jóhannes var fenginn að málinu.

„Í öllu falli er ljóst að þátttaka hans er ekki önnur en hlutdeildarmaður í brotum annarra,“ sagði Almar. Hann hefði ekki flutt inn efni eða tekið á móti. Atburðarásin hafi verið hafin í Brasilíu löngu fyrir fyrir tilstuðlan aðila sem Jóhannes þekki engin deili á.

„Aumingja Jói“

Þá taldi Almar að þátttaka ákærðu í málinu hefði verið mjög misjöfn. Lögreglumaður hefði borið að Jóhannes hefði haft lítið hlutverk í atburðarásinni.

Þá hefði Páll gengist við því að hafa flutt inn fíkniefni í gámi. Jóhannes hafi verið milliliður hans í keðjunni. Jóhannes væri enginn planleggjari. Þá hafi Páll nefnt „aumingja Jóa“ í samhengi málsins.

Jóhannes hefði verið afdráttarlaus um að aðild hans hefði hafist 22. maí 2022 þegar hann keypti tvo síma í Elko. Hann hafi í framhaldinu hitt Pál á Hilton, afhent honum annan símann svo þeir gætu átt samskipti. Þeir hafi verið með símana á sér við handtöku þann 4. ágúst í fyrra.

Segir framburð Páls misvísandi

Páll og Jóhannes hafa ekki verið sammála um aðdraganda málsins. Páll segir Jóhannes hafa nálgast sig miklu fyrr sem Jóhannes hefur þvertekið fyrir. Almar vildi meina að framburður Páls hefði verið misvísandi. Annaðhvort misminnti Pál eða hann væri að hlífa öðrum.

Sagði Almar að Unnsteinn, verjandi Páls, hefði talað um að Páll væri farinn að kalka sem gæti vel verið útskýringin. Framburður Jóhannesar hefði aftur á móti verið stöðugur.

Jóhannes segist hafa áttað sig á því eftir tveggja vikna gæsluvarðhald hvers vegna hann sæti inni. Hann hafi ekki vitað að um væri að ræða um hundrað kíló af kókaíni.Vísir/Vilhelm

Jóhannes hafi verið bætt við til að lengja í keðjunni. Fjarlægja þá sem stóðu að innflutningnum. Það hafi skilað árangri. Lítil peð sitji í súpunni á meðan stærri leikmenn hafi tryggt að ekki næðist til þeirra.

Sprengt upp þegar engin hætta hafi verið á ferðum

Þá sagði Almar ákæruvaldið þurfa að bera ábyrgð á því að menn ofar í keðjunni hefðu ekki náðst. Fyrir lægi hljóðupptaka frá aðgerðardegi þann 5. ágúst þegar mennirnir voru handteknir. Þá hefði lögregla fylgst með í beinni og vitað hvar Daði Björnsson, einn ákærðu, hefði lagt bíl sínum með gerviefni innanborðs.

Engin hætta hafi verið á ferðum en lögregla samt ákveðið að sprengja málið upp og ráðast til handtöku.

„Hvernig má vera að löggan beið ekki í hálfan sólarhring til að halda áfram að rekja keðjuna?“

Þá mótmælti Almar að sannað væri að fíkniefnin hefðu vegið 99 kíló. Sömuleiðis væri óvissa uppi um hvort allt hafi verið fíkniefni. Aðeins væri sannað að um tíu kíló hefðu verið kókaín þar sem hollenskir tollverðir hefðu aðeins tekið sýni úr hluta efnanna og þeim svo fargað.

Minni spámenn fái vægari refsingu

Að lokum krafðist Almar vægustu refsingar sem lög leyfðu. Jóhannes hefði gengist við sinni aðkomu og þeim mistökum sem honum hefðið orðið á. Hlutverk hans hefði verið afmarkað, hafist eftir að efnin voru komin af stað.

Þá hefði hann ekki komið að fjármögnun heldur hlýtt fyrirmælum eins og ákærði Páll hefði ávallt borið um. Þá hefði Jóhannes hreint sakavottorð en neyti kannabisefna vegna Tourette-sjúkdóms. Tímans innan veggja fangelsisins hafi hann nýtt til náms og ætli koma aftur í samfélagið sem betri maður.

Þá taldi Almar ljóst af dómafordæmum að þeir sem eigi beinan þátt í innflutningi fái þyngri dóma en samverkamenn sem eigi minni þátt. Þar geti munað allt að helmingi, sagði Almar og vitnaði til Skútumálsins. Þar hefðu sakborningar með minni hlutverk fengið þriggja til fimm ára refsingu en skipuleggjendur þyngri dóma.


Tengdar fréttir

„Það er á­kveðin leitun að sam­vinnu­þýðari sak­borningi“

Verjandi Páls Jónssonar timbursala segir himinn og hafa hafa verið á milli þeirra sem hlutu þunga dóma í Saltdreifaramálinu svokallaða og ákærðu í stóra kókaínmálinu. Hann taldi eðlilega refsingu fyrir Pál vera upp á fjögur til fimm ár að frátöldu gæsluvarðhaldi sem umbjóðandi hans hefur setið í síðan í ágúst.

Skýr á­setningur og krefst há­marks­refsingar

Saksóknari í stóra kókaínmálinu segir að innflutningur á hundrað kílóum af kókaíni gæti ekki þýtt annað en hámarksrefingu fyrir sakborninga. Þetta kom fram í málflutningi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Sakborningar í Saltdreifaramálinu svokallaða hefðu fengið allt að tólf ára dóm eða hámark refsirammans. 

Ein­býlis­hús, rán­dýr bíll og lúxus­líf­stíll en haldið uppi af pabba

Rannsakendur lögreglu telja að Birgir Halldórsson, einn af sakborningum í stóra kókaínmálinu, sé ekki jafn lítið peð í málinu og hann heldur sjálfur fram. Hann segist aðeins hafa verið milliliður en lögreglumaður sem kom að rannsókn málsins telur Birgir sé sá sem „sér um það sem vantar hér á landi, að það sé skaffað,“ líkt og það var orðað við aðalmeðferð málsins. Annar rannsakandi sagði frá því að Birgir og sambýliskona hans hefðu lifað lúxuslífstíl þrátt fyrir að vera ýmist á bótum eða á lágmarkslaunum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×