Sport

Rúss­nesk ólympíu­hetja þungt haldin eftir sýningu í bruna­gaddi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kostomarov vann till gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Tórínó árið 2006 ásamt Tatiana Navka.
Kostomarov vann till gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Tórínó árið 2006 ásamt Tatiana Navka. Vísir/Getty

Rússneski ólympíumeistarinn Romas Kostomarov liggur nú á sjúkrahúsi í Rússlandi en hann hefur misst báða fæturnar í kjölfar þess að hann kom fram á skautasýningu í miklu frosti í janúar.

Roman Kostomarov sem er fjörtíu og fimm ára gamall listhlaupari á skautum, vann til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í Tórínó árið 2006. 

Eftir að keppnisferlinum lauk hélt Kostomarov áfram að koma fram á hinum ýmsu skautasýningum og það var einmitt í kjölfarið á einni slíkri í janúar sem heilsu Kostomarov fór að hraka.

Hann kom þá fram á sýningu utanhúss í meira en tuttugu stiga frosti og var í kjölfarið fluttur á sjúkrahús eftir að hafa kvartað undan verk fyrir brjósti og slappleika.

Kostomarov var síðan greindur með blóðeitrun og lungnabólgu og var að lokum settur í öndunarvél til að auka líkurnar á að hægt væri að koma honum á bataveg. Eftir frekari erfiðleika þurfti svo að fjarlæga báða fætur hans og sömuleiðis nokkra fingur.

Í framhaldinu varð ástand Kostomarov betra en um helgina fékk hann heilablóðfall og er nú þungt haldinn á sjúkrahúsi.

Auk Ólympíugullsins árið 2006 hefur Kostomarov unnið til alls fimm gullverðlauna á heims- og evrópumótum en hann er einn sigursælasti skautahlaupari Rússa frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×