Sport

„Rosalega frústrerandi“ að trúa því að maður geti betur

Sindri Sverrisson skrifar
Kolbeinn Höður Gunnarsson er fljótasti maður landsins í dag.
Kolbeinn Höður Gunnarsson er fljótasti maður landsins í dag. vísir/Sigurjón

Kolbeinn Höður Gunnarsson er fljótasti maður landsins en hann hefur á skömmum tíma slegið Íslandsmetin í 60 og 200 metra hlaupi innanhúss. Hann segist nú vera að sýna nokkuð sem hann vissi lengi að hann gæti.

Kolbeinn vakti fyrst athygli fyrir um áratug þegar þessi 27 ára Akureyringur fór að setja sín fyrstu Íslandsmet, í 200 og 400 metra hlaupum.

Hann hefur síðan æft og keppt fyrir FH síðustu ár, og einnig Memphis-háskólann þegar hann bjó í Bandaríkjunum, og er eins og fyrr segir orðinn fljótasti maður landsins.

Kolbeinn sló nefnilega 30 ára gamalt Íslandsmet í 60 metra hlaupi innanhúss á Nike-mótaröðinni í Kaplakrika í janúar, með því að hlaupa á 6,68 sekúndum, og svo eigið Íslandsmet í 200 metra hlaupi á Reykjavíkurleikunum um helgina þegar hann hljóp á 21,03. Gamla metið hans var 21,21 sekúndur.

„Alltaf fundið það innst inni að ég væri betri“

„Upplifunin er þannig og ég hef alltaf fundið það innst inni að ég væri betri en það sem ég hef verið að sýna síðustu ár. Það getur verið rosalega frústrerandi að trúa því upp á sjálfan sig að maður eigi að vera á betri stað en maður er. En loksins er maður að sýna fram á það að maður sé á þessum stað sem maður trúði alltaf á,“ sagði Kolbeinn í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöld.

Þar kom fram að þrátt fyrir að Kolbeinn væri fljótasti maður landsins nyti hann engra sérstakra styrkja úr Afrekssjóði.

„Það mætti vera mun betur staðið að þessu. Mín persónulega skoðun er að það ætti að aðstoða fólk við að komast á þetta „level“. Ekki bíða eftir því að það vinni sig þangað sjálft og fara síðan að henda í það peningum. En ég er svo sem ekki við stjórnvölinn og hef ekkert um það að segja. En vonandi með komu Vésteins [Hafsteinssonar, nýráðins afreksstjóra ÍSÍ] til landsins þá breytist þetta, og breytist vonandi fljótt því ég á ekki mikið eftir í þessu,“ sagði Kolbeinn hlæjandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×