Fótbolti

Guðný spilaði þegar AC Milan steinlá fyrir Inter

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Guðný Árnadóttir, leikmaður AC Milan.
Guðný Árnadóttir, leikmaður AC Milan. Getty/Pier Marco Tacca

Það var boðið upp á nágrannaslag í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag og var einnig um Íslendingaslag að ræða þegar AC Milan og Inter áttust við.

Guðný Árnadóttir var á sínum stað í vörn AC Milan þegar liðið tók á móti grönnum sínum úr Inter en Anna Björk Kristjánsdóttir hóf leik á varamannabekk gestanna.

AC Milan hafði unnið fimm leiki í röð þegar kom að leik dagsins og munaði einu stigi á liðunum í fjórða og fimmta sæti deildarinnar. Inter mætti hins vegar til leiks af krafti og náði tveggja marka forystu á fyrstu fimmtán mínútum leiksins.

Martine Piemonti minnkaði muninn fyrir AC Milan skömmu fyrir leikhé og var staðan í hálfleik því 1-2. Í síðari hálfleik jók Inter við forystuna og vann leikinn að lokum 1-4.

Guðný lék allan leikinn fyrir AC Milan og Anna Björk sat allan tímann á bekknum hjá Inter.

Á sama tíma lék Alexandra Jóhannsdóttir allan leikinn fyrir Fiorentina sem vann öruggan 2-0 sigur á Pomigliano í sömu deild þar sem hin ungverska Zsanett Kajan gerði bæði mörk leiksins.

Alexandra og stöllur eru í 3.sæti deildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.