Erlent

Biðja formlega um leyfi til skriðdrekasendinga

Samúel Karl Ólason skrifar
Leopard 2 skriðdreki í eigu pólska hersins.
Leopard 2 skriðdreki í eigu pólska hersins. EPA/Marcin Bielecki

Yfirvöld í Póllandi hafa sent formlega beiðni til Þýskalands um leyfi til þess að senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu. Ráðamenn í Póllandi hafa gefið í skyn að verði beiðninni hafnað muni þeir samt senda skriðdrekana en Þjóðverjar hafa verið undir miklum þrýstingi að undanförnu vegna málsins.

Mariusz Błaszczak, varnarmálaráðherra Póllands, sagði frá því í morgun að formleg beiðni hafi verið lögð fram og að ríkisstjórn Þýskalands hefði fengið hana.

Ráðherrann hvatti Þjóðverja einnig til að ganga til liðs við þau ríki sem vilja senda Úkraínumönnum Leopard 2 skriðdreka. Þeir eru framleiddir í Þýskalandi en eru notaðir af mörgum ríkjum Evrópu. Ráðamenn í nokkrum ríkjum hafa sagst tilbúnir til að senda skriðdreka til Úkraínu ríkisstjórn Þýskalands hefur ekki tekið vel í það hingað til.

„Þetta er sameiginlegur málstaður okkar allra, því þetta snýst um öryggi allrar Evrópu,“ sagði Blaszczak.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, sagði í gær að sama hvert svar Þjóðverja við beiðni Pólverja yrði, myndi ríkisstjórn hans samt senda skriðdreka til Úkraínumanna.

„Jafnvel þó við fáum ekki leyfi, munum við hvort eð er senda skriðdreka okkar til Úkraínu í slagtogi með öðrum ríkjum, jafnvel þó Þýskaland sé ekki hluti að því,“ sagði Morawiecki, samkvæmt frétt New York Times.

Sjá einnig: Morawiecki segir framgöngu Þjóðverja óafsakanlega

Vilja vestræna skriðdreka

Eftir langvarandi þrátefli á víglínunum vinna bæði Rússar og Úkraínumenn að því að byggja upp nýjar herdeildir fyrir frekari átök þegar vorið nálgast. Úkraínumenn segja vopnasendingar þeim gífurlega mikilvægar og því fyrr sem þeir fái vopn því betra.

Úkraínumenn hafa fengið mikið af skriðdrekum frá tímum Sovétríkjanna að gjöf frá ríkjum Austur-Evrópu. Þeir segjast þó þurfa vestræna skriðdreka og þá að miklu leyti vegna þess að Vesturlönd framleiða ekki þau skotfæri sem sovésku skriðdrekarnir nota. Varahlutir eru einnig vandamál, þar sem skriðdrekarnir eru nú eingöngu framleiddir í Rússlandi og hjá bandamönnum Rússlands.

Hingað til eru Bretar þeir einu sem hafa tekið ákvörðunum að senda Úkraínumönnum vestræna skriðdreka. Þeir eiga þó tiltölulega fáa en ætla að senda fjórtán Challenger 2 skriðdreka.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, fundaði í morgun með Boris Pistorius, nýjum varnarmálaráðherra Þýskalands. Í kjölfar þess fundar sagði Stoltenberg að bakhjarlar Úkraínu þyrftu að útvega Úkraínumönnum þau vopn sem þeir þurfa til að verjast innrás Rússa, þar sem ráðamenn í Rússlandi hafi sýnt fram á að þeir ætli ekki að breyta um stefnu.

Stoltenbert sagði einnig að hann ætti von á því að Þjóðverjar myndu taka fljótt ákvörðun um skriðdrekasendingarnar.

Pistorius sagði eftir fundinn að bakhjarlar Úkraínu sem vilja senda skriðdreka til Úkraínu geti byrjað að þjálfa úkraínska hermenn á þá, sem hann hafði einnig sagt nokkrum dögum áður.


Tengdar fréttir

Skilgreina Wagner sem alþjóðleg glæpasamtök

Yfirvöld í Bandaríkjunum ætla að skilgreina rússneska málaliðahópinn Wagner Group sem alþjóðleg glæpasamtök. Í kjölfar þess verður hópurinn beittur viðskiptaþvingunum sem takmarka eiga umsvif hópsins á heimsvísu.

Macr­on ætl­ar í mikl­a hern­að­ar­upp­bygg­ing­u

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, tilkynnti í dag áætlun sína um þriðjungs aukningu á fjárútlátum til varnarmála. Samkvæmt áætlun hans á að verja 413 milljörðum evra til hersins á árunum 2024 til 2030, en á síðustu sambærilegu fjárhagsáætlun, frá 2019 til 2025, voru sömu fjárútlát 295 milljarðar.

Senda vestræna bryndreka til Úkraínu

Yfirvöld Í Bandaríkjunum og Þýskalandi tilkynntu í gærkvöldi að ríkin myndu senda tugi bryndreka til Úkraínu og þjálfa áhafnir á þá á komandi vikum. Það var í kjölfar þess að Frakkar opinberuðu að þeir ætluðu að senda brynvarin farartæki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×