Myndir í fréttum Stöðvar 2 af Þjórsá við Urriðafoss í gær tók einn af sérfræðingum Landsvirkjunar sem vakta vatnsaflið, Andri Gunnarsson.

Íshrannir byrjuðu að myndast við fossinn um miðjan desember en Andri segir að þessi samfelldi frostakafli núna sé orðinn óvenju langur.
„Þá nær áin ekkert að hreinsa sig á milli og þá byggist þetta bara upp og býr til svona stíflu,“ segir Andri sem er verkefnastjóri hjá Landsvirkjun.

Hann segir heimildir um miklar ísstíflur þarna í gamla daga. Íshrönnin sem núna hafi hlaðist upp sé stærri en menn hafi séð um árabil.
„Ég held að við höfum ekki séð hana í þessari stærðargráðu í allavegana í áratug.“

Andri segir það skipta máli vegna virkjana, sem verið er að hanna í Þjórsá, að skilja svona ferli.
„Svona almennt þá getur ís valdið ákveðnum truflunum í rekstri á virkjunum og það geta myndast stíflur í ám. Í raun og veru þegar þær fara, þær þurfa ekkert að vera mjög stórar til að safna miklu vatni, þá getur það haft allskonar áhrif.“

En um leið er ísmyndunin mikið sjónarspil.
„Áin hverfur bara þarna ofan í svona holu efst í fossinum. Svo sérðu hana bara eiginlega ekkert meira. Þannig að þetta er svolítið tilkomumikið að sjá þetta allt saman,“ segir Andri Gunnarsson, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: