Innlent

Frekar til­kynning en sátta­með­ferð

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Helga Vala Helgadóttir segir tilkynninguna benda til þess að niðurstaða FME sé að það hafi ekki verið farið að lögum við söluna á Íslandsbanka. 
Helga Vala Helgadóttir segir tilkynninguna benda til þess að niðurstaða FME sé að það hafi ekki verið farið að lögum við söluna á Íslandsbanka.  Vísir/Vilhelm

Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið lög þegar ríkið seldi 22,5% hlut sinn í bankanum, en bankinn sendi frá sér tilkynningu þess efnis að sáttaferli væri hafið milli bankans og FME. Stjórnarandstæðingur segir frekar um að ræða tilkynningu um væntanleg viðurlög heldur en sáttameðferð.

Í tilkynningu bankans kemur fram að Íslandsbanki hafi fengið í hendur frummat fjármálaeftirlits Seðlabankans vegna athugunar á framkvæmd Íslandsbanka á útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka sem fór fram í mars í fyrra. Í tilkynningunni segir einnig að FME hafI vakið athygli á heimildum eftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir og ljúka málinu með sátt og að sáttaferlið sé nú þegar hafið.

Fréttastofa hafði samband við fjármálaeftirlitið vegna málsins. Sigurður Valgeirsson, upplýsingafulltrúi, sagði Seðlabankann vera bundinn þagnarskyldu en benti hins vegar á reglur um heimild fjármálaeftirlitsins til þess að ljúka málum með sátt. Það hefur margoft verið gert og á annað hundrað málum hefur verið lokið með sátt síðan reglurnar tóku gildi árið 2007.

Helga Vala Helgadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, segir tilkynninguna benda til þess að einhver lög hafi verið brotin.

„Sko þegar að það kemur svona tilkynning frá þeim sem kann að sæta sektum, þá er auðvitað verið svona aðeins að matreiða hlutina ofan í okkur af því að við höfum enn ekki fengið að sjá neitt frá fjármálaeftirlitinu varðandi það hvaða lög voru brotin eða með hvaða hætti. En það bendir til þess að niðurstaða eftirlitsins sé að það hafi ekki verið farið að lögum við söluna.“

Sáttameðferð eða sáttaferli sé alvanalegt orðaleg í sakamálum.

„Svo er svolítið verið að velta upp núna þessu orði sem Íslandsbanki velur í sinni tilkynningu að tala um einhverja sáttameðferð. En það orð er auðvitað notað í alls kyns sakamálum, þó að lögbrot sé augljóst eða jafnvel viðurkennt af þeim brotlega þá er samt talað um sáttameðferð þegar að verið er að fjalla um mál og það minnkar ekkert sök viðkomandi þó að um sé að ræða einhverja sáttameðferð. Það er til dæmis bara notað þegar verið er að ræða möguleika á sættum í ofbeldisbrotum eða annars konar brotum. Fjármunaréttarbrotum og þess háttar.“

Frekar sé um að ræða tilkynningu.

„Þetta er tilkynning í rauninni um væntanleg viðurlög skilurðu, þetta er í rauninni ekki sáttameðferð heldur bara verið að tilkynna.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×