Bíó og sjónvarp

Settist í sófann hjá Jimmy Fall­on: „Þetta fer al­gjör­lega í minninga­bankann“

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Hér má sjá Thelmu á götum New York borgar og málverk eftir hana.
Hér má sjá Thelmu á götum New York borgar og málverk eftir hana. Instagram/@thelmagella

Thelma Sigurhansdóttir varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að setjast í sófa þáttastjórnandans Jimmy Fallon á meðan á auglýsingahléi við upptökur á kvöldþáttunum vinsælu „The Tonight Show with Jimmy Fallon“ stóð í desember síðastliðnum. Hún segir Fallon mikinn karakter en indælan.

 Fyrir tveimur dögum síðan ákveður Thelma að segja fylgjendum sínum á samfélagsmiðlinum Tiktok frá þessari alveg hreint ótrúlegu upplifun en hún er búsett í New York borg og stundar þar listnám við The City University of New York. Vísir sló á þráðinn til Thelmu og fékk að heyra hvernig upplifunin var.

Með því að vera smá djörf að eigin sögn, lendir hún í sófanum á sviðinu hjá Jimmy Fallon, rétt á eftir söng- og leikkonunni Selenu Gomez. Hún og tveir vinir hennar höfðu fengið miða sem gerðu þeim kleift að sitja og horfa á upptökur þáttarins. 

Ætla má að Thelma hafi setið í sófanum stuttu eftir viðtalið hér að ofan. 

„Þetta var ógeðslega gaman og kom mér líka alveg rosalega á óvart, þetta er eitthvað sem ég myndi ekki endilega búast við frá mér,“ segir Thelma en í auglýsingahléi á milli atriða voru áhorfendur spurðir hvort þeir hefðu einhverjar spurningar fyrir Fallon og ákvað Thelma að spyrja hvort hún mætti prófa sófann.

„Þegar ég var þarna sitjandi var ég rosa mikið með hugarfarið, hvað á ég að gera til þess að komast í þennan sófa? Hvað get ég sagt til þess að á að setjast þarna? Það var svona það eina sem ég var að hugsa,“ segir Thelma.

Fannst íslenska eftirnafnið mjög fyndið

Hún fékk ósk sína uppfyllta og fékk að setjast í sófann við hlið Fallon. Eftir stutt almennt spjall berst nafn Thelmu til tals.

„Ég er rosa vön því, ég bý úti þannig ég reyni alltaf að segja það voða hægt svo fólk nái að heyra hvað ég sé að segja. Ég segi „Thelma“ og hann segir „Thelma“ og svo segi ég „Sigurhansdóttir“ og þá fer allur salurinn og hann rosa mikið að hlæja,“ segir Thelma.

Hún segir Fallon þá hafa beðið sig um að endurtaka föðurnafnið sitt og hún hafi þá útskýrt fyrir honum hvernig íslensk eftirnöfn virki.

„Honum fannst þetta mjög áhugavert og vissi þetta ekki um Íslendinga.“

Hefur engin sönnunargögn í höndunum

Lífsreynsla Thelmu er eitthvað sem fáir utan Hollywood fá að upplifa, því hefði verið ansi skemmtilegt að eiga mynd af augnablikinu en það mátti alls ekki. Harðbannað hafi verið að vera með símann við hönd.

„Ég væri mjög til í að sjá þetta og bara sjá hvernig ég var og líka einmitt eiga mynd af þessu en svo er bara ótrúlega gaman að prófa þetta. [...] Þetta fer algjörlega í minningabankann,“ segir Thelma.

Aðspurð hvað hún myndi segja ef hún ætti að lýsa upplifuninni stuttlega segir hún lífreynsluna hafa verið „ótrúlega flippaða.“

Þeir sem vilja hlusta á alla söguna beint frá Thelmu geta horft á Tiktok myndbandið hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×