Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Mér þykir gaman að fylgjast með tískunni og taka eftir því hvað hún getur verið fljót að breytast og þróast með tímanum. Einnig að allir geti tjáð sinn stíl með mismunandi hætti.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Uppáhalds flíkin mín núna er annað hvort svört húfa frá Maison Margiela, sem ég er búinn að nota daglega yfir veturinn, eða golla frá Stüssy sem ég fékk nýlega í jólagjöf og hef notað mikið síðan. Hún er ótrúlega hlý, þægileg og passar við næstum allt sem ég á.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Ég reyni að eyða ekki of miklum tíma í það að velja föt.
Ég er oftast búin að ákveða hverju mig langar að klæðast kvöldinu áður, en þar sem ég er búsettur í Kaupmannahöfn og hjóla í vinnuna er mikilvægt fyrir mig að klæðast eftir veðri. Þess vegna er ekki alltaf hægt að treysta á það sem ég ákvað deginum áður.
Ég vel samt oftast víðar buxur, stuttermabol og annað hvort knit gollu eða peysu yfir.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Mér finnst stíllinn minn vera stöðugt að breytast með tímanum. Hann er frekar einfaldur heilt yfir en mér þykir þó gaman að prófa nýja hluti og hugsa yfirleitt ekki um það sem öðrum finnst.
Það sem mér finnst skipta mestu máli er að líða vel í því sem ég klæðist.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Mér finnst stíllinn minn hafa breyst töluvert í gegnum árin en þá sérstaklega sérstaklega eftir að ég flutti til Kaupmannahafnar og byrjaði að starfa innan um tískuheiminn.
Ég lifi og hrærist í þessu og er mikið innan um stóru tískumerkin. Mér finnst ég alltaf vera að sjá og uppgötva eitthvað nýtt sem mig langar prófa.
Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Ég sæki minn innblástur frá merkjum og hönnuðum sem ég fylgist með, bæði í vinnunni og á samfélagsmiðlum.
Auk þess er alltaf auðvelt að fá innblástur af götum Kaupmannahafnar eða Parísar þegar ég er þar í vinnuferðum.
Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Regla númer eitt, tvö og þrjú er að klæðast því sem þér líður best í.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Eftirminnilegasta flík sem ég hef klæðst er örugglega rauður jakki sem ég fékk um 4 ára aldurinn. Afi minn átti eins jakka og hélt ég því mikið upp á hann. Hann var notaður þar til hann varð orðinn allt of lítill eða þangað til mamma lét hann líklega hverfa.
Þessi jakki er mín fyrsta minning um að hafa skoðanir á því sem ég vildi vera í og tískuáhuganum.
Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Ég reyni að kaupa færri og gæðameiri flíkur sem endast lengur og passa við margt af því sem ég á nú þegar.
Síðan er sniðugt að vera duglegur að búa til pláss og losa úr fataskápnum það sem maður er hættur að nota og annað hvort selja eða gefa.