Innlent

Árið hófst á fíngerðri svifryksmengun

Kjartan Kjartansson skrifar
Flugeldar við Hallgrímskirkju áramótin 2020.
Flugeldar við Hallgrímskirkju áramótin 2020. Vísir/Egill

Svifryksmengun lá yfir höfuðborgarsvæðinu síðustu klukkustundir ársins 2022 og fyrstu klukkustundir ársins 2023 en veðuraðstæður vógu upp á móti henni. Áberandi hátt hlutfall fínasta og hættulegasta svifryksins mældist á gamlárskvöld og nýársnótt.

Fylgifiskur flugeldagleði landsmanna á gamlárskvöld er svifryksmengun sem getur haft áhrif á heilsu fólks í háum styrk. Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að svifryk frá flugeldum sé fíngerðara en það sem kemur frá bílaumferð. Fínar agnir komist lengra ofan í lungu fólks og eigi greiðari leið inn í blóðrásina. Þannig sé það mun hættulegra heilsu fólks en stærri svifryksagnirnar.

Mesta fína svifrykið mældist í farmælistöð við Vesturbæjarlaug frá miðnætti til klukkan eitt á nýársnótt. Þá mældist styrkur svonefnds PM 2,5-svifryks 63 míkrógrömm á rúmmetra og enn fínna PM 1-svifryks 60 míkrógrömm á rúmmetra. Samkvæmt viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar ætti styrkur PM 2,5 ekki að fara yfir fimmtán míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring og ekki yfir fimm míkrógrömm á ársgrundvelli.

Styrkur PM10-svifryks mældist mest 362 míkrógrömm á rúmmetra á klukkustundinni frá miðnætti við Grensás. Sólarhringsgildið þar var 20,2 míkrógrömm á rúmmetra en heilsuverndarmörk miðað við fimmtíu míkrógrömm.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×