Innlent

Tekur tíma að hita sundlaugarnar upp

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Starfsfólk Laugardalslaugarinnar notaði daginn til að þrífa.
Starfsfólk Laugardalslaugarinnar notaði daginn til að þrífa. Vísir/Egill

Starfsfólk Laugardalslaugarinnar hefur staðið í sannkallaðri jólahreingerningu frá því að sundlaugum borgarinnar var lokað í gær. Stefnt er að því að taka aftur á móti gestum strax í fyrramáli en það getur þó tekið tíma að hita laugina á ný.

Þrátt fyrir að engir gestir væru á svæðinu í dag hafði starfsfólk í nógu að snúast.

„Við erum að nýta daginn í að þrífa rennur og ristar. Eitthvað sem er ekki hægt að gera þegar það er fólk í lauginni en í dag þá nýtum við tækifærið og gerum bara allt í einu,“ segir Jökull Örlygsson starfsmaður Laugardalslaugarinnar.

Þannig var sett upp sérstakt plan til að hægt sé að þrífa sem mest þegar engir gestir eru á svæðinu.

„„Það voru bara sett upp þrifaplön og tækifærið nýtt til þess að þrífa svæði staði og svoleiðis sem við eigum mjög erfitt með að þrífa og fara með mjög sterk efni á og svoleiðis,“ segir Árni Jónsson forstöðumaður Laugardalslaugarinnar.

Árni Jónsson forstöðumaður Laugadalslaugarinnar hefur í dag notað tækifærið til að dytta að og þrífa ásamt starfsfólki sínu.Vísir/Egill

Sundlaugunum í Reykjavík var lokað í gær vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun. Viðgerð lauk í dag en laugarnar voru áfram lokaðar þar sem tíma tekur að vinna upp vatnsforða. Í fyrramáli klukkan sjö verður Laugardalslaugin opnuð á ný en aðrar laugar borgarinnar ekki fyrr en klukkan hálf tólf. Nokkur tíma getur tekið að hita laugarnar upp á ný.

„Það gæti alveg verið hálfur sólarhringur allavega eitthvað svoleiðis. Jafnvel eitthvað lengur,“ segir Árni.

Hann segir það sjaldgæft að lauginni sé lokað.

„Einu sinni á ári í Laugardalslaug. Það er lokað á jóladag og verður sem sagt lokað núna á jóladag. Að öðru leyti erum við bara alltaf með opið.“

Árni segir sundlaugargesti koma til með að taka eftir að búið sé að þrífa allt hátt og lágt.

„Ef að fólk kemur í jólabaðið til okkar á aðfangadag þá verða allir tandurhreinir.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×