Innlent

Lægðin færir höfuðborgarbúum líkast til hvít jól

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Svona gæti höfuðborgin litið út í morgunsárið.
Svona gæti höfuðborgin litið út í morgunsárið. Vísir/Vilhelm

Lægð nálgast nú óðfluga vestur af landinu sem Veðurstofan varar við vegna strekkings suðaustanáttar og snjókomu. Útlit er fyrir að kuldakastið, sem verið hefur, muni vara áfram næsta hálfa mánuðinn. Snjókoman sem fylgir lægðinni í kvöld er verður þannig þess valdandi að höfuðborgarbúar og fleiri vestan til á landinu fá að öllum líkindum hvít jól.

Nýjustu spár gera ráð fyrir talsverðri snjókomu víða á Suður- og Vesturlandi í kvöld og nótt og eru gular viðvaranir í gildi fyrir svæðið. Búast má við versnandi akstursskilyrðum, sér í lagi á fjallvegum.

„Það er lægð núna skammt vestur af landinu sem dregur til sín raka og það er útlit fyrir að snjói á vestanverðu landinu í kvöld og nótt og þar með talið höfuðborgarsvæðinu. Það er óvissa með það hversu mikil ákefð verður í þessu en þetta gæti valdið erfiðum akstursskilyrðum,“ segir Daníel Þorláksson veðurfræðingur.

Kuldakastið sem hefur einkennt veðrið undanfarna daga er síst á förum að sögn Daníels sem bendir á að hörkufrost sé í kortunum næsta hálfa mánuðinn.

Daníel segir að jólaveðrið sé farið að taka á sig mynd og líklegt sé að víðast hvar á landinu verði hvít jól, meira að segja á höfuðborgarsvæðinu.

„Við reiknum með að sá snjór sem fellur í kvöld og nótt - og það þarf nú ekki mikið til að verða smá föl - að hann haldi sér líklega fram að jólum en svo veit maður aldrei, það gæti alltaf myndast einhver önnur svipuð smálægð eins og er núna skammt vestur af en það er allavega þá útlit fyrir hvít jól einfaldlega vegna þess að það er ekki gert ráð fyrir neinum hlýindum fram að jólum.“


Tengdar fréttir

Allur Vest­manna­eyja­bær þakinn snjó

Ekki er hægt að segja að veturinn hafi verið snjóþungur hingað til en þó virðist það eitthvað vera að breytast á næstu sólarhringum. Á vefmyndavélum í Vestmannaeyjum má nú sjá snævi þakta jörð hvert sem litið er.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×