Sport

Fyrr­verandi tennis­stjarna laus úr fangelsi

Valur Páll Eiríksson skrifar
Becker losnaði sjö mánuðum á undan áætlun úr fangelsi í Bretlandi.
Becker losnaði sjö mánuðum á undan áætlun úr fangelsi í Bretlandi. Neil Mockford/GC Images

Þýska fyrrum tennisstjarnan Boris Becker er laus úr fangelsi í Bretlandi eftir átta mánaða dvöl bakvið lás og slá.

Becker var upprunalega dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi af breskum dómstólum en eftir áfrýjun var sá dómur mildaður.

Sá tími styttist í 15 mánaða fangelsisvist en Reuters-fréttastofan hefur fengið staðfest frá breska dómsmálaráðuneytinu að honum hafi nú verið sleppt eftir að hafa afplánað aðeins átta mánaða dóm. Hann var dæmdur fyrir að fela eignir að andvirði hundruða þúsunda punda þegar hann lýsti yfir gjaldþroti árið 2017.

Á meðal þess sem hann leyndi fyrir þarlendum yfirvöldum voru landeignir í Þýskalandi og 825 þúsund evrur sem var faldar voru í tæknifyrirtæki.

Becker vann sex risamót á ferli sínum og varð yngsti tenniskappi sögunnar til að fagna risatitli er hann vann Wimbledon-mótið í Lundúnum árið 1985, 17 ára gamall.

Hann er fjórtándi á lista yfir þá sem hafa þénað mest á tennisferli sínum, en hann hlaut 25 milljónir dala í vinningsfé á 16 ára atvinnumannaferli milli 1984 og 1999. Hann var tekinn inn í Alþjóðlega heiðurshöll tennisins árið 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×