Menning

Eiríkur í óleysanlegri klemmu um það hvar hann á að kaupa eigin bók

Snorri Másson skrifar

Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur lýsti á bloggi sínu nýverið flókinni stöðu sem hann stóð frammi fyrir þegar hann vildi útvega kunningjum eintök af jólabók hans þetta árið, Frankensleiki.

Honum bauðst að kaupa höfundareintök af Forlaginu, útgefanda bókarinnar, á 3.119 krónur, en hefði þá þurft að láta senda þær til Ísafjarðar, þar sem hann er búsettur. Á Ísafirði kostar bókin hins vegar 3.198 krónur í Bónus, sem er aðeins 2,5% hærra verð.

„Og þá spyr ég mig eðlilega hvort ég eigi heldur að panta þau aðeins ódýrari frá Forlaginu – og láta senda mér að sunnan með tilheyrandi kostnaði – eða bara fara inn í Bónus og kaupa þau þar? Ef ég geri það, og sel þau svo dýrar er ég þá ekki bara að okra á fólki? Og ef ég endursel þau á sama verði, er ég þá ekki bara kominn í vinnu fyrir Bónus?“ skrifar Eiríkur.

Í Íslandi í dag var rætt við Eirík, sem lýsti því að hann hafi raunar ekki enn komist að niðurstöðu um það hvort væri skynsamlegra; að kaupa bókina í Bónus eða af eigin forleggjara.

Eiríkur Örn Norðdahl sendi frá sér sína fyrstu bók árið 2001 og hefur síðan marga fjöruna sopið.Baldur Páll Hólmgeirsson

„Það er bara of vandræðalegt að fara í bókabúð og kaupa eigin bók. En þetta er náttúrulega ekki alveg hægt. Ég hef aldrei fengið útskýringu á því sem ég trúi alveg á því hvers vegna þetta er svona. Forlagið segir bara að Bónus niðurgreiði þetta bara, svo maður komi inn og kaupi mjólkurlíterinn. En mér finnst það ekki alveg ganga upp. En mér finnst líka ósennilegt að Forlagið sé að selja Bónus bókina ódýrar en þeir selja mér hana, og ég vona að það sé allavega ekki þannig,“ sagði Eiríkur.

Í viðtalinu er rætt um hvaðeina sem viðkemur bókaútgáfu þessa dagana, og meðal annars farið yfir sérstaka en spennandi nýja barnabók Eiríks, Frankensleiki, hryllingssögu sem gerist um jólin. Hvað er enda hryllilegra en óvægin tilkynning um að jólasveinninn sé að minnsta kosti ekki allur þar sem hann er séður, ef hann er þá til yfirleitt.

Frankensleikir fjallar um systkini sem búa til ófreskju úr jólasveinum.Twitter/Eiríkur Örn

Tengdar fréttir

Þessi fá lista­manna­laun 2022

Starfslaunum til listamanna fyrir árið 2022 hefur verði úthlutað og fengu umsækjendur bréf frá Stjórn listamannalauna nú í morgun hvort þeir fengu eða ekki. Kætast þá margir eða eru svekktir eftir atvikum. Nú rétt í þessu var gefin út tilkynning um hverjir fá og má sjá lista yfir þá hér neðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×