Holland tryggði sér sigur í A-riðli HM karla í fótbolta með auðveldum og öruggum 2-0 sigri gegn gestgjöfum Katar í lokaumferð riðilsins í dag.
Hollendingar munu því mæta liðinu sem endar í 2. sæti B-riðils en þar ráðast úrslitin í kvöld, þegar England mætir Wales og Bandaríkin mæta Íran.
Senegalar fylgja Hollendingum upp úr A-riðlinum eftir að hafa unnið Ekvador, 2-1.
Cody Gakpo kom Hollandi yfir í dag með sínu þriðja marki á mótinu en hann skoraði í öllum leikjum Hollands í riðlakeppninni. Hollendingar höfðu sundurspilað lið Katara áður en Gakpo fékk boltann og skoraði neðst í hægra hornið, frá vítateigsboganum.
Hollendingar höfðu algjöra stjórn á leiknum og bættu við öðru marki snemma í seinni hálfleik þegar Frenkie de Jong var fyrstur á vettvang og kom boltanum yfir marklínuna, eftir að skot Memphis Depay af stuttu færi var varið.
Holland skoraði eitt mark til viðbótar sem dæmt var af vegna hendi á Gakpo, og varamaðurinn Steven Berghuis komst aftur nálægt því að skora þegar hann skrúfaði boltann í þverslána með fallegu skoti í uppbótartíma.
Holland endaði með sjö stig í riðlinum en Katarar skoruðu aðeins eitt mark á mótinu og fengu ekkert stig.