Innlent

Vilji til þess að leysa hlutina í sameiningu

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Aðalgeir Ástvaldsson er formaður SVEIT
Aðalgeir Ástvaldsson er formaður SVEIT Stöð 2

Talsverður styr hefur staðið um næturlíf Reykjavíkur að undanförnu en til viðbótar við ofbeldismálin sem hafa verið í fréttum hefur skapast talsverð umræða um hávaða frá skemmtistöðum eins og við sögðum frá í kvöldfréttatíma okkar í gær.

Íbúar hafa kvartað yfir hávaða, of miklum bassa sem glymur milli húsa og þá hafa hótelrekendur jafnvel þurft að endurgreiða gestum vegna hávaðakvartana. 

Kristófer Oliversson er formaður félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Hann segir sambýlið oftast ganga vel þó auðvitað verði stundum núningur á milli aðila.

„Við lifum hvor á öðrum og nauðsynlegt að vera saman í þessu en það er í þessu eins og öðru, hann er vandrataður hinn gullni meðalvegur. Við viljum hafa lifandi borg og gott og skemmtilegt mannlíf og viljum líka geta sofið á nóttunni. Svo þetta er og hefur verið og mun verða togstreita þarna á milli svona í einstaka tilfellum,“ sagði Kristófer í samtali við fréttastofu. 

Vilja leysa málið í sameiningu

Aðalgeir Ástvaldsson, formaður samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, segir veitingamenn alla af vilja gerða til þess að koma til móts við kvartanir íbúa. Pláss sé fyrir alls konar rekstur í miðbænum.

„Við höfum verið frá því í vor á fundum með borgarráði varðandi hávaðamál og önnur mál sem er hægt að taka á. Við höfum unnið með ríkislögreglustjóra, heilbrigðiseftirliti og aðilum innan borgarinnar sem hefur bara gengið mjög vel. Svosem ekkert óeðlilegt að íbúar hafi eitthvað að segja um þessi mál en við viljum klárlega bara leysa þetta í sameiningu,“ sagði Aðalgeir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×