Richarlison stal senunni er Brassar yfirspiluðu Serba

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Richarlison skoraði bæði mörk Brasilíu í kvöld og það síðara var afar glæsilegt.
Richarlison skoraði bæði mörk Brasilíu í kvöld og það síðara var afar glæsilegt. Markus Gilliar - GES Sportfoto/Getty Images

Brasilíumenn sýndu sambatakta er liðið vann öruggan 2-0 sigur gegn Serbíu í fyrsta leik liðanna á heimsmeistaramótinu í Katar. Það var þó framherji liðsins, Richarlison, sem stal senunni, en hann skoraði bæði mörk leiksins.

Brasilíska liðið er ógnarsterkt og flestir sem spá því að Brassar vinni sinn sjötta heimsmeistaratitil í ár.

Liðinu gekk þó erfiðlega að brjóta vörn Serba á bak aftur í fyrri hálfleik og staðan var því enn markalaus þegar liðin gegnu til búningsherbergja.

Brassarnir mættu þó tvíefldir til leiks í síðari hálfleik og sundurspiluðu serbneska liðið. Fyrsta mark leiksins leit loks dagsins ljós eftir rúmlega klukkutíma leik þegar Neymar prjónaði sig í gegnum serbnesku vörnina áður en Vinicius Jr. lét vaða á markið. Vanja Milinkovic-Savic var þó vel vekandi í marki Serba, en boltinn barst út í teig þar sem Richarlison var einn á auðum sjó og hann kom brasilíska liðinu yfir.

Richarlison var svo aftur á ferðinni rúmum tíu mínútum síðar þegar áðurnefndur Vinicius Jr. gaf boltann fyrir markið. Fyrsta snerting Richarlison var nokkuð þung og boltinn skoppaði upp í loftið, en framherjinn sýndi mikla takta þegar hann snéri sér í hálfhring og klippti boltann snyrtilega í nærhornið, 2-0.

Þrátt fyrir þunga sókna Brassa það sem eftir lifði leiks, þar sem liðið átti meðal annars tvö skot í markrammann, tókst þeim ekki að bæta við mörkum og niðurstaðan því öruggur 2-0 sigur Brasilíu.

Brasilíska liðið er nú á toppi G-riðils með þrjú stig, líkt og Sviss, en Serber reka lestina án stiga.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.