Veður

Eðli­legt að menn séu á tánum vegna rigninga á Seyðis­firði

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði fyrir tæpum tveimur árum síðan. 
Miklar aurskriður féllu á Seyðisfirði fyrir tæpum tveimur árum síðan.  Vísir/Arnar

Eftirlit með hreyfingu í jarðvegi á Seyðisfirði hefur verið aukið vegna mikillar úrkomu sem er spáð næstu vikuna. Veðurfræðingur segir úrkomuákefð á landinu nokkuð óeðlilega miðað við árstíma.

Mikil úrkoma var á sunnanverðu landinu í gærkvöldi og í nótt og er úrkomu spáð áfram næstu rúmu vikuna. Mestri rigningu er spáð á suðausturlandi og sunnanverðum austfjörðum. Úrkomuákefðin í gær skýrist af hlýju lofti sem er yfir landinu.

„Eftir því sem loftið er hlýrra þeim mun meiri úrkomu getur það innihaldið eða geymt í sér. Svo þegar fer loks að rigna úr þessu veðrur úrkomuákefðin mjög mikil,“ segir Óli Þór Árnason veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Næstu tíu daga megi gera ráð fyrir áframhaldandi rigningu.

„Það verður svolítið misjafnt hvar rignir mest en almennt rignir mest á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum sérstaklega. Það er engin samfelld úrkoma en hún verður áberandi mest þar. Það verður ekki þurrt neins staðar á landinu,“ segir Óli.

Opið sár sem hætta er á að renni úr

Haustið hafi verið óvenju milt.

„Lægðirnar fara hérna fyrir sunnan land og keyra svo til Evrópu og Skandinavíu og skilja eftir rigningu og tiltölulega milt loft yfir okkur. En þetta er svolítið óvenjulegt, já,“ segir Óli. 

Úrkoma mældist tæplega tvö hundruð millimetrar síðustu vikuna á Seyðisfirði og hefur eftirlit verið aukið vegna aukinnar skriðuhættu á svæðinu. Mikilli rigningu er spáð þar næstu daga en veðurfræðingur telur Seyðfirðinga sleppa betur en íbúar sunnar á austfjörðum.

„Verandi með opið sár þarna þá er alltaf ákveðin hætta að komi eitthvað úr því. Það tekur tíma að gróa og er lausara efni og það er töluvert laust efni í hlíðinni þannig að menn eru á tánum yfir því.“

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, segir í samtali við fréttastofu að Almannavarnir séu meira á tánum nú en venjulega vegna rigninganna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×