Innlent

„Þetta er eins og einhver leikur sem gengur allt of langt“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Annar maðurinn þegar hann var leiddur fyrir dómara.
Annar maðurinn þegar hann var leiddur fyrir dómara. Vísir/Vilhelm

„Vegir dómstólanna eru órannsakanlegir og það má alltaf vona það besta. Ég mun, og minn umbjóðandi, mótmæla þessu harkalega. Þetta er eins og einhver leikur sem gengur allt of langt.“

Þetta segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður annars af mönnunum tveimur sem hafa setið í gæsluvarðhaldi vegna meintrar skipulagningar hryðjuverka, í samtali við Fréttablaðið.

Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald í dag en það rennur út á morgun. Sveinn Andri segir það gert á grundvelli almannahagsmuna en hann segir lögregluna komna „langt fram úr sjálfri sér“ og vonandi sjái dómurinn það.

Búið er að framkvæma geðmat á báðum mönnum en lögmaðurinn segist ekki geta tjáð sig um það.

Mennirnir tveir, sem báðir eru á þrítugsaldri, eru grunaðir um að hafa staðið að prentun vopna og skipulagningu hryðjuverka sem eiga meðal annars að hafa beinst að lögreglu, þingmönnum og einstaklingum í verkalýðsforystunni.

Þeir hafa nú setið í gæsluvarðhaldi í sjö vikur.

Sveinn Andri hefur áður sagt að skjólstæðingur sinn sé „meinleysisgrey“ sem gerði ekki flugu mein og að samtöl mannanna á milli hafi verið „misheppnað grín“. Hann hefur ekki trú á því að mennirnir verði ákærðir fyrir annað en vopnalagabrot.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×