Nick er tónlistarmaður sem starfar hjá litlu og sjálfstætt reknu plötufyrirtæki. Hann stefnir að því að fá tónlistarmenn frá plötufyrirtækinu til að koma fram á Airwaves en Ísland er í miklu uppáhaldi hjá honum.
„Ég skemmti mér stórkostlega þegar ég kom hingað árið 2017 og ég varð ástfanginn, ekki bara af tónlistinni heldur af fólkinu og borginni.“ Hann segist strax hafa hlakkað til að koma aftur, bókaði miða í faraldrinum en ferðin var felld niður.
„Það er dásamlegt að vera kominn aftur og þetta er alveg jafn skemmtilegt og mig minnti. Fólkið hér er svo opið, hlýtt og gestrisið. Andrúmsloftið hér er fullt af hæfileikum og sköpunargleði og ég er að skemmta mér svo vel,“ segir Nick og bætir við: „Ég er virkilega hrifinn af þessum bjór.“
Nick segist einstaklega spenntur fyrir íslenska tónlistarfólkinu, JFDR stendur upp úr hingað til og hann ætlar sér að sjá Axel Flóvent í kvöld.
Aðspurður hvað hann ætli að gera fleira á Íslandi segist Nick hafa farið beint í Bláa lónið þegar hann lenti og fengið sér sundsprett.
„Ég elska líka að heimsækja litlar bruggsmiðjur og bari hérna og hef smakkað ótrúlega góða bjóra. Þetta er því frábært tónlistar- og bjór retrait fyrir mig í nokkra daga,“ segir Nick hlæjandi að lokum.
Í spilaranum hér að ofan má sjá tónlistarmyndband við lagið „Driving Hours“ sem Axel Flóvent gaf út fyrir tveimur og hálfu ári síðan.