Tónlist

„Lagið er algjör ástarjátning“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Söngkonan Kristín Sesselja sækir gjarnan innblástur í það sem hún er að ganga í gegnum hverju sinni.
Söngkonan Kristín Sesselja sækir gjarnan innblástur í það sem hún er að ganga í gegnum hverju sinni. Ingrid Marie Slettmoen

Söngkonan Kristín Sesselja gaf út lagið Rectangular Bathroom Tiles síðastliðinn föstudag. Í laginu sækir hún meðal annars innblástur í ástina, samtöl við fyrrverandi kærastann sinn og hornréttar baðherbergis flísar. Blaðamaður tók púlsinn á henni og fékk að heyra nánar frá tónlistinni og lífinu.

Hornréttar baðherbergis flísar

„Hugmyndin að laginu kviknaði þegar ég var að tala við þáverandi kærasta minn um hvað ég sagðist elska marga hluti,“ segir Kristín Sesselja og bætir við: „Hann sagði við mig: Þú segist elska alls konar hluti eins og lauk, Taylor Swift, nachos og svo segistu elska mig. 

Elskarðu mig eins og þú elskar lauk? Hvernig fyndist þér ef ég myndi segja að ég elskaði þig eins og nýþvegin rúmföt eða að ég elskaði þig eins og ég elska hornréttar baðherbergis flísar?“

Fullkomið samband eða baðherbergis gólf

Í kjölfarið segist Kristín hafa hlegið og skrifað þetta samtal niður í símann. 

„Ég sagðist ætla að skrifa lag um það. Svo þróaði ég hugmyndina betur og nefndi alls konar minningar úr okkar sambandi, þar á meðal gamlárskvöld, að segja að þú elskir einhvern í fyrsta skipti og vera smá hrædd við það en hoppa svo bara í djúpu laugina og vonast eftir því besta. 

Lagið er algjör ástarjátning og þegar ég hugsa um það núna finnst mér allar þessar minningar vera mismunandi flísar sem, þegar þær eru settar saman, verða að fullkomnu sambandi, eða baðherbergis gólfi.“

Innblásturinn kemur frá eigin tilfinningum

Það er allur gangur á því hvernig Kristín semur tónlist og segir það eins mismunandi og lögin eru mörg.

„Oft segir einhver í kringum mig eitthvað og ég skrifa það niður í notes hjá mér, er með eitt notes sem er orðið svona kílómetra langt af texta brotum. Svo þegar mig vantar innblástur sest ég niður og byrja að skrifa lagið út frá þessu samtali.

Stundum tek ég upp gítarinn og byrja að syngja eitthvað bull og það kemur fram eitthvað flott og þá held ég bara áfram. Stundum er ég í sturtunni, að keyra eða úti að labba og ég fæ einhverja hugmynd að textabroti og laglínu og þegar ég hef tíma fer ég og klára lagið.“

„Oftast klára ég lög í einu session-i en það getur tekið lengri tíma. Svo sendi ég lagið á pródúsent og vinn það með þeim lengra, en ég klára oftast lagasmíðina áður en ég fer að taka það upp og bæta fleiri hljóðfærum við.

Lögin mín fjalla alltaf um eitthvað persónulegt og tengt mínum tilfinningum. Ég nota oftast það sem ég er að ganga í gegnum sem innblástur.“

Persónuleg og poppuð

Það er ýmislegt á döfinni hjá Kristínu Sesselju, sem er um þessar mundir að leggja lokahönd á EP plötu sem er væntanleg í byrjun næsta árs.

„Platan er persónuleg og poppuð og ég er ótrúlega spennt að gefa hana út. 

Þar eru lög sem ég hef beðið lengi eftir að gefa út, meðal annars eitt sem ég samdi þegar ég var sautján ára.

Svo er ég að halda upp á afmælisvikuna mína núna en ég á afmæli 12. október. Þannig að ég er mjög spennt að hlusta á 22 með Taylor Swift, halda upp á afmælið mitt og njóta haustsins í Osló.“


Tengdar fréttir

Kristín Sesselja gefur út nýja plötu um ástarsorg

Söngkonan Kristín Sesselja sendi í dag frá sér plötuna Breakup Blues og er hún sjálf höfundur allra laga og texta. Hinn efnilegi Baldvin Hlynsson útsetti öll lögin á plötunni nema tvö sem þau útsettu saman


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.