Tónlist

„Ég kannski ýki ákveðna bresti sem ég er með“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Herra Hnetusmjör er einn af þeim sem er á bak við Hugó.
Herra Hnetusmjör er einn af þeim sem er á bak við Hugó.

Örfáir vita hver tónlistarmaðurinn Hugó er en það mun koma í ljós í samnefndri þáttaröð á Stöð 2. Herra Hnetusmjör er einn af teyminu í kringum Húgó en eitt af því sem það hugsaði mikið um var útlit og ímynd.

„Því ýktari sem maður er og því staðfastari sem maður er í útlitinu þá er auðveldara að muna eftir manni,“ segir Herra Hnetusmjör sem hugsaði einmitt sjálfur mikið út í þetta þegar hann var að skapa sér nafn og var það meðan annars ástæðan fyrir því að hann tók upp nafnið Hnetusmjör og ber alltaf sólgleraugu.

Ekki í karakter en öðruvísi hugarfar 

„Ég veit ekki hvaða tónlistarmaður vann tónlistarmyndband ársins árið 2017 en það vita allir hverjir voru í bláu og rauðu á bláum og rauðum bíl. Emmsjé Gauti og Herra Hnetusmjör. Ég er blái kallinn hjá krökkum,“ segir Herra og hlær en myndbandið við umrætt lag, Þetta má, er hægt að sjá í heild sinni neðst í fréttinni.

„Mér finnst ég ekki beint vera í karakter þegar ég er Herra Hnetusmjör en ég kannski ýki ákveðna bresti sem ég er með. En ég er ekkert að þykjast vera einhver sem ég er ekki. Það er bara eins og allir. Þú ert ekki sama manneskjan í vinnunni og heima hjá þér. Ég er bara með aðeins öðruvísi hugarfar þegar ég geng upp á svið og þegar ég er að svæfa son minn.“

Klippa: Ég kannski ýki ákveðna bresti sem ég er með

Hver er Húgó?

Mikil leynd hefur ríkt fyrir því hver sé á bak við grímuna hjá tónlistarmanninum sem hefur komið víða fram síðustu árin. Hlaðvarp hefur til dæmis verið sett á laggirnar sem er tileinkað því að leysa ráðgátuna.

Hugó er í dag mjög vinsæll tónlistarmaður sem er kannski ekki furða en í fyrsta þættinum í síðustu viku kom fram að Herra Hnetusmjör og Þormóður Eiríksson eru mennirnir á bak við tónlistina sem Hugó flytur.

Um er að ræða verkefni sem fer yfir það hvernig er hin fullkomna formúla fyrir vinsælli tónlist og hvort hægt væri að gera bara einhvern að vinsælasta tónlistarmanni landsins.

Klippa: Emmsjé Gauti - Þetta má ft. Herra Hnetusmjör

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×