Innlent

Ískyggilegar aðstæður á slysaæfingu

Snorri Másson skrifar

Mörgum brá ef til vill í brún vegna elds og mikils viðbúnaðar á Reykjavíkurflugvelli í morgun. Þar var verið að halda stórslysaæfingu á vegum Isavia og almannavarna þar sem æfð voru viðbrögð við umfangsmiklu flugslysi. Hér í innslaginu að ofan má virða fyrir sér aðstæður á „slysstað.“

Neyðin virtist meiri en hún var í raun þegar á fjórða hundrað manns tóku þátt í flugslysaæfingu á Reykjavíkurflugvelli í morgun.

Tveimur flugvélum átti að hafa lent saman og á áttunda tug manna átti að hafa slasast. Allt var þetta leikið samviskusamlega og allir liðir atburðarásarinnar settir á svið. Fólk var meira að segja keyrt upp á sjúkrahús.

Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbragða hjá Isavia.

„Við reynum að hafa þetta sem raunverulegast þannig að þau fái sem mest út úr æfingunni sjálfri og leikararnir leggja náttúrulega mikið á sig að leika þannig að þetta verði sem best fyrir okkur hin,“ sagði Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbragða hjá Isavia.

Það er gífurlega mikið lagt í æfingu af þessum toga þannig að spurningin vaknar hvort þetta hafi raunverulega þýðingu þegar á hólminn er komið, að hafa farið í gegnum þetta allt á æfingu?

„Klárlega, af því að við erum í rauninni að efla allt okkar hópslysaviðbragð hérna á þessu svæði, af því að við notum sama kerfi í útislysi, snjóflóði eða hvað sem er. Þannig að við erum að æfa alla ferlana - þetta er flugslys núna, en þetta er að efla okkur í okkar störfum.“

Eins ískyggilegt og ástandið kann að hafa blasað við í morgunsárið var árangurinn þegar æfingunni lauk um hádegisbil góður. Það er alltaf eitthvað sem má fara betur - eins gott að nú sé vitað hvað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×