Fótbolti

Fær­eyjar með ó­trú­legan sigur á Tyrk­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr fyrri leik liðanna í riðlinum. Honum lauk með 4-0 sigri Tyrklands en Færeyjar hefndu fyrir tapið í kvöld.
Úr fyrri leik liðanna í riðlinum. Honum lauk með 4-0 sigri Tyrklands en Færeyjar hefndu fyrir tapið í kvöld. Isa Terli/Getty Images

Færeyjar og Tyrkland mættust í C-deild Þjóðadeildarinnar í kvöld. Tyrkland hafði þegar tryggt sér sigur í riðlinum og þar með sæti í B-deild og Færeyjar voru öruggar með sæti sitt í riðlinum. Það var því kannski ekki mikið undir í leik kvöldsins en úrslitin eru þó ein þó óvæntustu í manna minnum.

Tyrkneska landsliðið í fótbolta virðist ekki kunna vel við sig hér í Norður Atlantshafi. Liðinu tókst ekki að leggja Ísland í þremur tilraunum frá 2014 til 2019 og nú beið liðið lægri hlut í Færeyjum.

Kerem Aktürkoğlu, leikmaður Galatasaray, hélt hann hefði komið Tyrkjum yfir í fyrri hálfleik en markið var dæmt af vegna rangstöðu eftir að myndbandsdómari leiksins hafði skoðað það nánar.

Staðan var því markalaus er flautað var til hálfleiks. Eftir aðeins sex mínútna leik í síðari hálfleik gerðist hið ótrúlega. Viljormur í Heiðunum Davidsen, leikmaður Helsingborg, kom heimamönnum yfir eftir sendingu Sølva Vatnhamar.

Átta mínútum síðar var staðan svo orðin 2-0. Jóan Símun Edmundsson, leikmaður Beveren, með markið og Færeyingar í sjöunda himni. Serdar Gürler, leikmaður İstanbul Başakşehir, minnkaði muninn þegar ein mínúta var eftir af venjulegum leiktíma.

Færeyska vörnin hélt eftir það og unnu Færeyjar frækinn 2-1 sigur. Var þetta fyrsta tap Tyrklands í riðlinum en Tyrkir enda með 13 stig á meðan Færeyjar fóru upp í átta stig með sigrinum. Færeyjar hafa nú leikið fjóra leiki án ósigurs, eitthvað sem liðinu hefur aldrei tekist áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×