Dybala kom Roma aftur á sigur­braut

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Paulo Dybala (til hægri) fagnar marki sínu í kvöld.
Paulo Dybala (til hægri) fagnar marki sínu í kvöld. EPA-EFE/CLAUDIO GIOVANNINI

Roma lagði Empoli 2-1 í eina leik kvöldsins í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni. Rómverjar þurftu nauðsynlega á sigrinum að halda eftir neyðarlegt tap gegn Udinese í síðustu umferð og Ludogorets í Evrópudeildinni í kjölfarið.

Paulo Dybala kom Roma yfir á 17. mínútu eftir að boltinn féll til hans í teignum. Þrumaði hann knettinum í netið José Mourinho til mikillar gleði. Mourinho var þó ekki lengi í paradís en heimamenn i Empoli jöfnuðu metin á markamínútunni frægu.

Það voru 43 mínútur á klukkunni þegar Filippo Bandinelli jafnaði metin með skalla af stuttu færi og staðan jöfn 1-1 þegar flautað var til enda fyrri hálfleiks. Gestirnir voru sterkari aðilinn en þeim gekk illa að skapa sér almennileg færi.

Það gerðist loks á 72. mínútu þegar Dybala átti fyrirgjöf sem Tammy Abraham skilaði í netið. Staðan orðin 2-1 og Rómverjar með öll völd á vellinum. Skömmu síðar héldu heimamenn að þeir væru að fá vítaspyrnu þegar dómari leiksins fór í VAR-sjána á hliðarlínunni en hann ákvað að ekki hefði verið um brot að ræða og leikurinn hélt áfram.

Það var svo á 77. mínútu sem gestirnir frá Róm fengu vítaspyrnu. Lorenzo Pellegrini tók spyrnuna en þrumaði henni í þverslánna og staðan enn 2-1 Roma í vil. Þegar þrjár mínútur lifðu leiks fékk Jean-Daniel Akpro rautt spjald í liði Empoli og vonir þeirra um að jafna leikinn hurfu er Akpro gekk af velli.

Lokatölur 2-1 Roma í vil og lærisveinar Mourinho eru komnir á beinu brautina á nýjan leik. Roma er í 5. sæti Serie A með 13 stig að loknum sex leikjum eða stigi minna en toppliðin þrjú: Napoli, Atalanta og AC Milan.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.