Erlent

Skrefinu nær bólu­efni gegn malaríu en Bretar gætu slaufað verk­efninu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Rúmlega sex hundruð þúsund manns deyja árlega úr malaríu.
Rúmlega sex hundruð þúsund manns deyja árlega úr malaríu. Getty/Wendy Stone

Þessa stundina er R21 bóluefnið gegn malaríu prófað í Búrkínu Fasó, Kenía, Malí og Tansaníu. Efnið hefur sýnt allt að 77 prósent virkni en allt gæti farið í vaskinn ef Bretar hætta við aðkomu sína að verkefninu.

Bóluefnið er framleitt af vísindamönnum við Oxford-háskólann í Bretlandi en breska ríkið er þriðji stærsti styrktaraðili verkefnisins. Í samtali við The Guardian segist Adrian Hill, einn þeirra sem kemur að verkefninu, vonast eftir því að nýr forsætisráðherra landsins, Liz Truss, slaufi ekki verkefninu. Ef fjármagnið frá breska ríkinu myndi hætta að berast væri verkefnið dauðadæmt.

„Ég vona að nýi forsætisráðherrann muni vera reiðubúinn í halda áfram að gera það sem Bretland hefur gert svo vel hingað til,“ segir Hill en hann virðist hafa miklar áhyggjur af valdaskiptunum.

Vísindamenn við háskólann vonast eftir því að bóluefnið verði samþykkt af WHO á næsta ári en tilraunir hafa nú þegar hafist í fjórum Afríkuríkjum. Í Búrkína Fasó hefur efnið hingað til sýnt 77 prósent virkni gegn malaríu.

Bóluefnið er það fyrsta gegn malaríu sem rýfur 75 prósenta múrinn sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur fyrir lyfjaframleiðendur. Ef verkefnið fær grænt ljós frá stofnuninni er vonast eftir því að geta framleitt tvö hundruð milljón skammta árlega.

Til eru bóluefni gegn malaríu en að sögn vísindamanna yrði þetta það besta hingað til. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×