Sport

Heims­meistarinn hætti í miðju móti og vitnaði í Mourin­ho á sam­fé­lags­miðlum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Magnus Carlsen hefur alls orðið fimm sinnum heimsmeistari í skák.
Magnus Carlsen hefur alls orðið fimm sinnum heimsmeistari í skák. Olimpik/Getty Images

Magnus Carlsen, heimsmeistari í skák, hætti í miðri keppni á Sinquefield-mótinu. Talið er að Carlsen hafi hafi hætt þar sem hann taldi mótherja sinn vera að svindla. Er hann tjáði sig um málið á Twitter-síðu sinni þá vitnaði hann í knattspyrnuþjálfarann José Mourinho.

Carlsen hefur gefið út að hann muni ekki reyna að verja heimsmeistaratitil sinn þar sem hann finni ekki fyrir neinum hvata til þess. Alls hefur hann orðið heimsmeistari í skák fimm sinnum. Hann er þó enn að keppa í skák og var kominn í þriðju umferð á Sinquefield-mótinu. 

Um er að ræða virt alþjóðlegt skákmót þar sem heildarverðlaunafé er í kringum hálf milljón Bandaríkjadala. Mótið er einnig hálfgert lokamót Grand Chess-mótaraðarinnar þar sem flestir af bestu skákmönnum heims keppa.

Carlsen tapaði fyrir hinum 19 ára gamla Hans Niemann í 3. umferð mótsins og ákvað í kjölfarið að hætta þátttöku í mótinu. Var þetta í annað sinn sem Carlsen tapar fyrir Niemann á innan við mánuði. Vitað er að Niemann svindlaði er hann spilaði skák á veraldarvefnum sem ungur drengur en hann segist betri maður í dag. Það virðist sem Carlsen kaupi það ekki alveg ef marka má færslu heimsmeistarans á Twitter.

„Ég hef dregið mig úr keppni. Ég hef alltaf notið þess að spila í Saint Louis skákklúbbnum (þar sem mótið fer fram) og vonast til að snúa aftur í framtíðinni,“ stendur í færslunni en undir textanum er myndbandsbútur úr viðtali sem José Mourinho fór í fyrir mörgum árum. Þar segir Mourinho: „Ég verð í miklum vandræðum ef ég tjái mig.“

Það er nokkuð ljóst að Carlsen telur vera brögð í tafli og segja má að skáksamfélagið sé á hliðinni vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×