Sport

Serena Williams endar ferilinn með systur sinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tennissysturnar Venus og Serena Williams keppa saman í hinsta sinn á Opna bandaríska risamótinu sem hefst á morgun.
Tennissysturnar Venus og Serena Williams keppa saman í hinsta sinn á Opna bandaríska risamótinu sem hefst á morgun. Monica Schipper/Getty Images for Lotte New York Palace

Serena Williams, ein besta tenniskona sögunnar, mun enda ferilinn með eldri systur sinni, Venus Williams, í tvíliðaleik á Opna bandaríska risamótinu sem hefst á morgun.

Serena tilkynnti á dögunum að Opna bandaríska yrði hennar seinasta mót á ferlinum. Ásamt því að leika í einliðaleik hefur hún fengið svokallað „Wildcard“ í tvíliðaleik og mun þar leika með systur sinni, Venus.

Serena og Venus eru engir nýliðar í tvíliðaleik, en saman hafa þær unnið 14 risatitla og þrenn Ólympíugullverðlaun.

Serena er orðin fertug og Venus 42 ára, en þær hafa ekki leikið tvíliðaleik saman frá árinu 2018 þar sem þær féllu úr leik í þriðju umferð á Opna franska. Þær unnu sinn fyrsta risatitil einmitt á Opna franska árið 1999 og þeirra seinasti risatitill kom á Wimbeldon mótinu árið 2016.

Ferlar þessara þekktustu tennissystra heims er nú senn á enda, en Serena situr nú í 608. sæti heimslistans. Hún hefur unnið 23 risatitla í einliðaleik á sínum ferli og mætir Danka Kovinic frá Svartfjallalandi í fyrstu umferð á Opna bandaríska.

Systir hennar, Venus, hefur unni sjö risatitla á ferlinum og situr nú í 1445. sæti heimslistans. Hún mun einnig taka þátt í einliðaleiknum á Opna bandaríska og mætir Alison van Uytvanck frá Belgíu í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×