Sport

„Erum hungraðar í að bæta Íslandsmeistaratitlinum við“

Andri Már Eggertsson skrifar
Elísa Viðarsdóttir í baráttunni
Elísa Viðarsdóttir í baráttunni Vísir/Hulda Margrét

Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, var himinlifandi með sigur í úrslitum Mjólkurbikarsins gegn Breiðabliki.

„Það er ótrúlega sætt að vinna þennan titil. Mér fannst þetta erfiður leikur. Við vorum þungar og lengi að trekkja okkur í gang en sem betur fer spiluðum við betur í seinni hálfleik,“ sagði Elísa Viðarsdóttir í samtali við Vísi eftir leik

Elísu fannst fyrri hálfleikur lokaður og spilamennska Vals ekki eins og lagt var upp með fyrir leik.

„Mér fannst bæði lið vera að reyna að finna sig í fyrri hálfleik. Við vorum ekki að þora að gera það sem við erum vanar að gera en sem betur fer hristum við skrekkinn úr okkur og vorum flottar í seinni hálfleik.“

„Í seinni hálfleik fórum við að slaka á og njóta þess að spila þennan leik og fórum að spila eins og við höfum gert á tímabilinu.“

Valur er í efsta sæti Bestu deildarinnar og sagði Elísa að markmiðið væri að vinna báða bikarana.

„Við erum ótrúlega hungraðar í að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Við erum í bullandi séns á að taka tvennuna og við verðum að mæta í næsta leik og gera vel,“ sagði Elísa Viðarsdóttir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×