Sport

Vésteinn setur alla pressuna á Slóvenann og er ekki á móti rigningu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Stahl og  Simon Pettersson fagna gulli og silfri á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrra.
Daniel Stahl og  Simon Pettersson fagna gulli og silfri á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrra. Getty/Maja Hitij

Ísland á ekki bara Guðna Val Guðnason í úrslitum kringlukastsins á EM í frjálsum í kvöld heldur er íslenski þjálfarinn Vésteinn Hafsteinsson með tvo menn í úrslitunum.

Mennirnir hans Vésteins, Daniel Ståhl og Simon Pettersson, unnu gull og silfur á Ólympíuleikunum í fyrra en Vésteinn segir að slóvenski heimsmeistarinn Kristjan Ceh sé langsigurstranglegastur í úrslitunum í kvöld.

Kristjan Ceh varð heimsmeistari í Eugene í Bandaríkjunum í júlí með kast upp á 71,13 metra en þá voru strákarnir hans Vésteins í fjórða (Ståhl) og fimmta sæti (Pettersson).

Það er búist við rigningu í München í kvöld og Vésteinn grætur það ekkert. Hann segir að þeir Daniel og Simon hafi undirbúið sig fyrir bleytuna.

„Kristjan Ceh er betri en allir aðrir og hefur verið það allt þetta ár. Hinir fimm munu keppa um silfur og brons,“ sagði Vésteinn Hafsteinsson við Radiosporten.

„Ef það byrjar að rigna þá getur þetta farið í allar áttir. Við erum samt hrifnir af því að fá rigningu af því að við höfum undirbúið okkur vel fyrir það,“ sagði Vésteinn.

„Ég hef væntingar til þess að Daniel komist á pall en það verður erfiðara fyrir Simon,“ sagði Vésteinn.

Í undankeppninni þá kastaði Kristjan Ceh lengst eða 69,06 metra en Litháinn Andrius Gudzius Mykolas Alekna var næstur með kast upp á 66,70 metra. Daniel var þriðji með 65,49 metra kast en Simon var tíundi með 63,39 metra kast. Guðni Valur kastaði 61,80 metra og var tólfti og síðastur inn í úrslitin.

Keppnin í kvöld hefst klukkan 18.20 að íslenskum tíma og verður fylgst með henni á Vísi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.