Innlent

Dagur tekur ekki for­manns­slaginn

Árni Sæberg skrifar
Dagur B. Eggertsson verður ekki næsti formaður Samfylkingarinnar.
Dagur B. Eggertsson verður ekki næsti formaður Samfylkingarinnar. Vísir/Ragnar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun ekki gefa kost á sér sem næsti formaður Samfylkingarinnar. Hann segir hlutverk sitt frekar vera að styðja við bakið á þeim sem munu leiða flokkinn.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tilkynnti í júní að hann myndi ekki sækjast eftir áframhaldandi formennsku flokksins. Hann er þegar orðinn þaulsetnasti formaður flokksins frá stofnun hans og telur að kominn sé tími á breytingar.

Um leið og Logi tilkynnti að hann færi ekki fram hófust vangaveltur um það hvort Dagur B. Eggertsson yrði arftaki hans. Dagur hefur nú tekið fyrir þær vangaveltur og segir í samtali við Fréttablaðið að hann muni ekki gefa kost á sér.

„Ég hef auðvitað skynjað mikinn stuðning. Fólk hefur kallað eftir nýrri ríkisstjórn sem yrði mynduð frá vinstri yfir á miðjuna svipað og í Reykjavík. En ég er að hefja nýtt kjörtímabil í borginni og á ekki sæti á þingi. Þess vegna var langsótt að ég byði mig fram til formennsku í flokknum,“ er haft eftir honum í blaði dagsins.

Þó segir Dagur ekki útilokað að hann muni færa sig yfir í landsmálin og bjóða sig fram til Alþingis þegar næst verður kosið til þess.

Kristrún boðar til fundar

Sú sem oftast hefur verið nefnd sem mögulegur arftaki Loga, auk Dags, er Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Kristrún mun samkvæmt heimildum fréttastofu halda fund með stuðningsfólki sínu klukkan 16 á morgun í Iðnó. Talið er að hún muni tilkynna framboð sitt til formanns á fundinum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.