Fótbolti

Lampard stoppar í götin í varnarlínu sinni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Conor Coady hefur skrifað undir samning við Everton. 
Conor Coady hefur skrifað undir samning við Everton.  Vísir/Getty

Enski varnarmaðurinn Conor Coady er genginn til liðs við Everton á lánssamningi frá Wolves en lánið gildir út yfirstanandi keppnistímabil.  

Coady sem hefur leikið með Úlfunum í sjö leiktíðir var fyrirliði liðsins í fjögur tímabil. Í fyrsta leik Wolves í ensku úrvalsdeildinni á nýhafinni leiktíð gegn Leeds United var Coady hins vegar ónotaður varamaður. 

Það var í fyrsta síðan í apríl árið 2017 sem Coady spilar ekki fyrir Wolves í leik þar sem hann er ekki að glíma við meiðsli eða taka út leikbann. 

West Ham United hafði einnig áhuga á kröftum Coady næstu misserin en Everton hafði betur í baráttunni um miðvörðinn sem hefur leikið tíu leiki fyrir enska landsliðið. 

Everton varð fyrir blóðtöku í tapinu gegn Chelsea í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi. Ben Godfrey fótbrotnaði í þeim leik og verður fjarri góðu gamni næstu þrjá mánuðina. Þá fór Yerry Mina af velli vegna ökklameiðsla í þeim leik. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðsli Mina eru. 

Wolves er aftur á móti að festa kaup á portúgalska framherjanum Gonçalo Guedes sem kemur til félagsins frá Valencia.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×