Sport

Norski kóngurinn keppir á heimsmeistaramótinu á níræðisaldri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haraldur Noregskonungur er öflugur siglingamaður.
Haraldur Noregskonungur er öflugur siglingamaður. Getty/Marijan Murat

Haraldur Noregskonungur er 85 ára gamall en tekur engu að síður þessa dagana þátt í heimsmeistaramóti í siglingum.

Haraldur er ásamt félögum sínum á bátnum Sira taka þátt í heimsmeistarakeppninni á átta metra kjölbátum sem er haldið í Genf í Sviss. Norska ríkisútvarpið segir frá.

Eftir að kappsiglingaskúta Haraldar hafði kláraða fjórar leiðir þá var hún í ellefta sæti samanlagt þrátt fyrir martraðarbyrjun.

Svo óheppilega vildi til að Sira ræsti öfugum megin við upphafslínuna og fékk fyrir refsingu sem þýddi að hún kom síðust í mark í fyrstu lotunni.

Bestum árangri náði bátur konungs í annarri lotu þegar hann kom fjórði í mark og var síðan í níunda og þrettánda sæti í hinum siglingalotum dagsins.

Heimamenn á svissneska bátnum Yquem II eru með örugga forystu eftir að hafa unnið allar fjórar leiðirnar.

Haraldur Noregskonungur hefur unnið til verðlauna á átta metra kjölbátum eða alls fimm frá heimsmeistaramótum og þar af er eitt gull sem kom í hús árið 1987. Hann hefur einnig orðið Evrópumeistari en það var árið 2005.

Haraldur tók einnig þátt í þremur Ólympíuleikum eða leikunum 1964, 1968 og 1972. Besti árangur hans þar var áttunda sæti á 5,5 metra kjölbáti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×