Sport

Afrekaði það sama og stórstjarnan faðir hans en bara 46 árum seinna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elliot Thompson er breskur meistari í tugþraut alveg eins og faðir sinn afrekaði á áttunda áratug síðustu aldar.
Elliot Thompson er breskur meistari í tugþraut alveg eins og faðir sinn afrekaði á áttunda áratug síðustu aldar. Instagram/@the_real_elliot_thompson

Þeir sem muna eftir súperstjörnunni Daley Thompson ætti að hafa gaman af því að sjá Elliot Thompson feta í fótspor föður síns á breska meistaramótinu í frjálsum íþróttum um helgina.

Hinn 29 ára gamli Elliot Thompson varð þá breskur meistari í tugþraut í fyrsta sinn afrek sem faðir hans vann svo oft á sínum ferli.

Sigur Elliott kemur 46 árum eftir að Daley faðir hans vann þennan titil í fyrsta sinn árið 1976.

Þrátt fyrir slaka byrjun og aðeins sjötta sætið í fyrstu grein, sem var 100 metra hlaup, þá varð Elliott annar í langstökki og vann svo kúluvarpið. Hann vann tvær greinar á fyrri deginum og fylgdi því síðan eftir með því að halda velli á seinni deginum en hann endaði hann með því að vinna 1500 metra hlaupið.

Sigur hans vakti auðvitað mikla athygli enda muna flestir eftir föður hans þegar stjarna hans skein skærast á níunda áratugnum.

Daley Thompson var nefnilega á sínum ein stærsta íþróttastjarna heims eftir að hann varð Ólympíumeistari í tugþraut á tveimur Ólympíuleikum í röð, fyrst 1980 í Moskvu og svo aftur 1984 í Los Angeles. Hann sló heimsmetið fjórum sinnum og var ósigraður í tugþraut í níu ár.

Það var ekki bara stórskotleg frammistaða sem jók hróður Daley heldur einnig stórskemmtileg framkoma hans enda sannur skemmtikraftur á ferðinni. Daley varð að hætta keppni vegna meiðsla árið 1992, þá 34 ára gamall.

Daley eignaðist Elliot sama ár og hann varð að leggja skóna á hilluna eða í ágústmánuði 1992.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×