Innlent

Ein­stak­lingur greindur með berkla á Land­spítalanum

Magnús Jochum Pálsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir ekki tilefni til að hafa áhyggur af berklasmitinu. Slík tilfelli komi reglulega upp.
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir ekki tilefni til að hafa áhyggur af berklasmitinu. Slík tilfelli komi reglulega upp. Vísir/Vilhelm

Einn einstaklingur greindist með berkla á Landspítalanum fyrir helgi, samkvæmt Má Kristjánssyni, yfirlækni á smitsjúkdómadeild Landspítalans. Líklegt þykir að um fjölónæma berkla sé að ræða en þó sé ekkert tilefni til að hafa áhyggjur. Brugðist hefur verið við með viðunandi lyfjameðferð og einangrun.

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, greindi frá því í viðtali við Vísi í dag að einstaklingur hefði komið á spítalann fyrir helgi sem væri með berkla. Hins vegar væri ekki tilefni til að hafa áhyggjur og brugðist hafi verið við með viðunandi hætti.

Líklega fjölónæmir berklar

Þá greindi Már frá því að vegna þess að einstaklingurinn væri frá landi þar sem tíðni fjölónæmra berkla er talsvert há væru tilteknar líkur á að um fjölónæma berkla væri að ræða.  Hann vildi ekki tilgreina frá hvaða landi einstaklingurinn væri en sagði að fjölónæmir berklar væru víða um lönd, „til dæmis í Rússlandi, sumum Afríkuríkjum og sums staðar í Suðaustur-Asíu.“

Aðspurður um hvað aðgreindi fjölónæma berkla frá öðrum sagði Már að venjulegar meðferðir dygðu ekki eins vel á fjölónæma berkla þar sem þeir væru ónæmir fyrir fleiri lyfjum en aðrir berklar.

„Venjulega notum við þrjú lyf í byrjun. Ef þú ert með ónæmi fyrir einu lyfinu, þá tölum við um ónæma berkla, en ef þú ert með ónæmi fyrir tveimur lyfjum, þá tölum við um fjölónæmi. Það krefur okkur um notkun fleiri lyfja sem eru ekki jafn öflug og þau sem eru venjulega notuð,“ sagði Már um lyfjameðferð við fjölónæmum berklum.

Að lokum sagði hann að þetta smit væri ekki tilefni til að hafa áhyggjur, þetta væri eitthvað sem kæmi alltaf upp af og til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×