Tónlist

Íslenski listinn: „Samstarfið var frábært, eins og það hefur verið frá árinu 1988“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Friðrik Dór og Jón Jónsson sitja saman á íslenska listanum með lagið Dansa.
Friðrik Dór og Jón Jónsson sitja saman á íslenska listanum með lagið Dansa. Helgi Ómarsson

Bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór sendu frá sér sumarsmellinn Dansa í maí síðastliðnum. Lagið hefur hækkað sig upp íslenska listann undanfarnar vikur og skipar nú sjöunda sætið. Blaðamaður tók púlsinn á bræðrunum og fékk að heyra nánar frá samstarfinu.

„Ég hef átt viðlagið lengi og textinn þar var klár enda afskaplega einfaldur í sniðum. 

Hann er þó byggður á tvítugum Johnny Jay sem, þrátt fyrir að vera alltaf á bíl, upplifði nokkrum sinnum að dansa og bulla í mannskapnum alveg til lokunar, þegar ljósin voru kveikt,“

 segir Jón Jónsson.

Lauflétt og langt í alvarlegheit

Lagið Dansa er einnig að finna á plötunni Lengi lifum við sem Jón gaf síðastliðið haust.

„Lagið var það síðasta sem við Pálmi unnum fyrir plötuna og átti í raun ekkert að vera á henni. En þegar Pálmi skellti í taktinn við gítargutlið mitt þá varð til einhver fílingur sem gerði það að verkum að restin af laginu var auðsamin.“

Friðrik Dór var þó ekki með í upphaflegu útgáfunni.

„Það var svo bara núna um daginn sem við Frikki vorum að taka upp nýjasta N1 - hittarann að við Pálmi plötuðum brósa með á lagið enda Frikki annálaður danskonungur þjóðar. Þannig gerði Frikki nýtt fyrsta erindi og saman smíðuðum við nýjan millikafla. Allt saman bara lauflétt og langt í alvarlegheitin.“

Aðspurður um innblásturinn fyrir sínu hlutverki í laginu segir Frikki léttur í lund:

„Hvað mig varðar þá var Jón bróðir innblásturinn, eins og reyndar í öllu sem ég geri. Samstarfið var frábært, eins og það hefur verið frá árinu 1988.“

Gjöf til þjóðarinnar

Jón segir að þeir bræður séu ekki búnir að plana neitt frekara samstarf annað en auðvitað N-1 lagið sem er væntanlegt.

En þegar þú nefnir það þá er auðvitað ekkert annað í stöðunni en að gera kannski bara nokkur bræðralög og skilja þau eftir á streymisveitum sem gjöf til þjóðarinnar sem alltaf er svo góð við okkur. Framundan er einmitt útgáfa nýja N1-lagsins en auk þess styttist í almenn sumarævintýri með fjölskyldunni í bland við spilamennsku hér og þar og misgefandi störf í garðinum.

Íslenski listinn er fluttur alla laugardaga á milli klukkan 14:00-16:00 á FM957.

Hér má finna íslenska listann í heild sinni:

Íslenski listinn á Spotify:


Tengdar fréttir

„Blanda af sumar fíling og því að fylgja hjartanu“

Plötusnúðurinn og tónlistarmaðurinn Doctor Victor situr í áttunda sæti íslenska listans þessa vikuna með nýjasta lagið sitt Falling. Lagið hefur verið á siglingu upp á við á undanförnum vikum. Blaðamaður tók púlsinn á Victori.

Harry Styles nær toppnum og stefnir á tónleikaferðalag

Harry Styles situr á toppi íslenska listans þessa vikuna með nýjasta lagið sitt As It Was. Lagið hefur verið á stöðugri siglingu upp á við undanfarnar vikur og hefur náð gríðarlegum vinsældum víða um heiminn.

Breska Eurovision stjarnan mætt á íslenska listann

TikTok stjarnan Sam Ryder sló í gegn í Eurovision í ár þar sem hann keppti fyrir hönd Bretlands og hreppti annað sætið. Lagið hans Space Man skýst beint í sjötta sætið á íslenska listanum sína fyrstu viku á lista.

Mætt á toppinn og verður því „Aldrei toppað“

Lagið „Aldrei toppað“, flutt af FM95Blö og Aroni Can, skipar fyrsta sæti íslenska listans þessa vikuna. Tíu ára afmælishátíð FM95Blö fór fram með pomp og prakt í gærkvöldi og hefur lagið verið á stöðugri siglingu upp á við að undanförnu.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.