Sport

Kaepernick æfir með Rai­ders | Sex ár síðan hann var út­skúfaður

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Colin Kaepernick við æfingar fyrr á árinu.
Colin Kaepernick við æfingar fyrr á árinu. Jaime Crawford/Getty Images

Leikstjórnandinn Colin Kaepernick mun æfa með NFL-liði Las Vegas Raiders í vikunni. Komin eru sex ár síðan Kaepernick var útskúfaður úr deildinni fyrir að krjúpa þegar þjóðsöngurinn var sunginn.

Hinn 34 ára gamli Colin Kaepernick lék með San Francisco 49ers frá 2011 til 2016. Var hann leikstjórnandi liðsins er það komst alla leið í Ofurskálina 2012 og svo í úrslit NFC-deildarinnar ári síðar.

Kaepernick er þó hvað þekktastur fyrir mótmæli sín gegn lögregluofbeldi og mismunun í Bandaríkjunum. Árið 2016 var leikstjórnandinn meðal þeirra leikmanna sem ákváðu að krjúpa þegar þjóðsöngur Bandaraíkjanna var sunginn en það er gert fyrir alla leiki NFL-deildarinnar.

Hann hélt því áfram þó svo að mótmælin hafi verið harðlega gagnrýnd af hinum ýmsu stjórnmálamönnum. Þáverandi forseti Bandaríkjanna gekk svo langt að kalla eftir því að NFL-deildin myndi reka leikmenn sem dirfðust að mótmæla lögregluofbeldi og mismunun í landinu.

Samningur Kaepernick rann út eftir tímabilið er mótmælin hófust og eftir að það virtist ekkert lið deildarinnar vilja snerta leikstjórnandann með tíu metra löngu priki. Talið var að mótmælin væru stór ástæða þess.

Síðan þá hefur Kaepernick barist fyrir jafnrétti ásamt því að ítreka að hann sé í frábæru formi og tilbúinn að snúa aftur í NFL-deildina. Hann fær nú tækifæri til að sýna hvað hann getur en Raiders hafa boðað hann á æfingar.

Raiders endaði í 5. sæti AFC-deildarinnar á síðustu leiktíð þar sem Los Angeles Rams stóðu á endanum uppi sem sigurvegarar NFL-deildarinnar.

NFL

Tengdar fréttir

Fáir ætla að sjá Kaepernick æfa

Öllum liðum NFL-deildarinnar stendur til boða að sjá leikstjórnandann Colin Kaepernick æfa næstkomandi laugardag í Atlanta.

Hrekja lygar um Kaepernick

Fulltrúar fyrrum NFL-leikmannsins Colin Kaepernick sendu frá sér yfirlýsingu í gær til þess að koma ákveðnum hlutum á hreint er varðar þennan fyrrum leikstjórnanda San Francisco 49ers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×