Mourinho bætir enn einum Evrópubikar í safn sitt

Atli Arason skrifar
Jose Mourinho smellir einum blautum á nýjasta bikarinn í titlasafn sitt. 
Jose Mourinho smellir einum blautum á nýjasta bikarinn í titlasafn sitt.  Getty Images

AS Roma vann Feyenoord 1-0 í fyrsta úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu í kvöld. Bikarinn er fimmti Evrópubikar Jose Mourinho á ferlinum og er hann um leið sá fyrsti til að vinna alla Evrópubikarana sem í boði eru.

Nicolò Zaniolo skoraði eina mark leiksins þegar hann lyfti boltanum yfir Justin Bijlow, markvörð Feyenoord á 32. mínútu. Markið kom eftir frábæra fyrirgjöf frá Gianluca Mancini. Allt ætlaði um koll að keyra á varamannabekk Roma en Mourinho var sá slakasti, enda nóg eftir.

Feyenoord sýndi mikið hugrekki og var nálægt því að jafna leikinn í þrígang í síðari hálfleik. Tvisvar kom stöngin liði Roma til bjargar og Roger Ibañez, varnarmaður Roma, bjargaði marki með frábærri tæklingu þegar markahæsti leikmaður keppninnar, Cyriel Dessers, var kominn einn gegn marki Roma.

Mourinho þétti varnarleik Roma sem varði eins marks forskot sitt og hélt út leiktímann. Roma vinnur því fyrstu Sambandsdeild Evrópu en þetta er fyrsti evrópubikar hjá ítölsku lið síðan Mourinho vann Meistaradeildina með Inter árið 2010.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira