Fótbolti

„Fyrir mér mikil­vægast að láta fót­boltann tala“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ada Hegerberg stangar boltann í netið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Ada Hegerberg stangar boltann í netið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu. EPA-EFE/ALESSANDRO DI MARCO

Norska markadrottningin Ada Hegerberg var eðlilega í sjöunda himni eftir magnaðan 3-1 sigur Lyon á Barcelona í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Ada var að sjálfsögðu á skotskónum en það er ekki sjálfsagt eftir undanfarin misseri hjá þessari mögnuðu íþróttakonu.

Segja má að sigur kvöldsins hafi fullkomnað endurkomu Ödu Hegerberg. Eftir að slíta krossbönd snemma árs 2020 þá meiddist hún illa aftur sama ár. Á endanum var hún frá í meira en eitt og hálft ár. 

Hún sneri til baka í október síðastliðnum og hefur verið að koma sér í sitt gamla form hægt og rólega. Í aðdraganda úrslitaleiksins sagði Ada að henni fyndist að fólk hefði verið full fljótt að gleyma hversu gott lið Lyon væri. Hún bakkaði það svo upp á vellinum.

Ian Wright, fyrrum framherji Arsenal og enska landsliðsins, spurði Ödu út í fagnið hennar en hann taldi að hún væri að gefa eitthvað í skyn með því hvernig hún hefur fagnað mörkum sínum að undanförnu.

„Ég veit það ekki, fyrir mér mikilvægast að láta fótboltann tala. Við viljum ekki tala of mikið utan vallar, þetta snýst allt um að standa sig innan vallar. Við höfum alltaf sagt það sem lið, við einbeitum okkur að því,“ sagði Ada eftir leik og hélt áfram.

„Þetta snýst alltaf um næsta bikar, svo maður verður að koma sér aftur út á völl, vinna hart að sér og leyfa öðru fólki að tala.“

„Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að standa hér ári síðar. Ég er komin langa leið, ég fæ gæsahúð við að hugsa um það. Seigla, leggja hart að sér, þetta er allt þess virði. Það er svo hvetjandi og ég bara 26 svo ég á nóg eftir,“ sagði Ada hlæjandi að endingu aðspurð út í meiðslin.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.